Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur tekið ákvörðun um endurskoðun á starfsleyfi bálstofu Kirkjugarða Reykjavíkur að Vesturhlíð 6. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar. Þar kemur fram að ástæðan sé sú að mengun af völdum starfseminnar hafi reynst meiri en búast mátti við þegar núverandi leyfi var gefið út í júní 2021.
Að lokinni endurskoðun verður tillaga að endurskoðuðum starfsleyfisskilyrðum auglýst á vefsvæði Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í fjórar vikur.
DV hefur fjallað um undanfarna daga að foreldrar barna í nálægum leikskóla séu búnir að fá sig fullsadda af menguninni frá líkbrennslunni sem veldur starfsfólki og börnunum miklum ama. Þá var í morgun birt myndband af mengunarreyknum sem blés frá bálstofunni þegar leikskólabörn mættu í skólann.