En það var ekki fyrr en hópur lækna lagðist yfir mál hennar að þeir komust að því hvað væri að. Það gerðist eftir að Miranda var við það að gefast upp á veikindunum og blóðprufur leiddu í ljós að hún þjáðist af Lyme-sjúkdómmum.
Telja læknar fullvíst að hann hafi grasserað í líkama hennar síðan hún var unglingur, en þá komu fyrstu einkenni sjúkdómsins fram.
Á vef Heilsuveru kemur fram að Lyme-sjúkdómur sé smitsjúkdómur í mönnum af völdum bakteríunnar Borrelia burgdorferi. Bakterían berst í menn eftir bit sýkts skógarmítils þegar hann nærist á blóði viðkomandi. Því fyrr sem sjúkdómurinn greinist er auðveldara að meðhöndla hann, en langvarandi einkenni geta reynst fólki mjög þungbær.
„Útbreidd sýking verður þegar bakterían dreifir sér um líkamann og sest að í húð, miðtaugakerfi, hjarta eða liðum. Þetta getur gerst vikurnar eftir sýkingu ef ekki er gefin meðferð. Fyrir kemur að sýkingin valdi viðvarandi liðbólgum. Sjaldgæfir fylgikvillar eru minnisleysi, síþreyta og hjartsláttartruflanir sem haldast þótt bakterían hafi verið upprætt,“ segir á vef Heilsuveru en þar er jafnframt tekið fram að flest mítlabit séu skaðlaus og litlar líkur séu á veikindum eins og hér er lýst.
Miranda var búsett í Virginíuríki í Bandaríkjunum á sínum yngri árum og er talið að hún hafi fengið sjúkdóminn þegar hún var búsett þar. Miranda opnaði sig um veikindin í ævisögu sinni sem kom út fyrir skemmstu og segir hún í umfjöllun Mail Online að læknum hafi tekist að gera líf hennar bærilegra eftir að í ljós kom hvað var að. Hún segist þó ekki vera búin að ná sér að fullu, en í þrjú ár áður en hún greindist þjáðist hún af krónískum þreytusjúkdómi (ME) sem getur verið einn af fylgikvillum Lyme.
Í umfjöllun Mail Online kemur fram að um þrjú þúsund ný tilfelli af Lyme-sjúkdómnum greinist árlega í Bretlandi. Samtökin Lyme Disease UK telja þó að raunverulegur fjöldi nýrra tilfella sé allt að tvöfalt eða þrefalt meiri og þeim virðist fara fjölgandi af ástæðum sem eru ekki að fullu þekktar.
Ein kenning er sú að fjölgun svokallaðra „grænna svæða“ nálægt mannabyggðum skapi góðar aðstæður fyrir mítla til að fjölga sér. Loftslagsbreytingar er annað atriði sem vísindamenn nefna sem og aukin þekking á eðli og einkennum sjúkdómsins.