Kári Árnason yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi segir að lætin milli Breiðabliks og Víkings hafi haldið áfram í sumar.
Kári var til viðtals í útvarpsþætti Fótbolta.net en þar vekur athygli að Kári vildi ekki segja hvað hefði gengið á.
Rætt var um ríginn sem var þegar Óskar Hrafn Þorvaldsson var þjálfari Breiðabliks en þá gekk of mikið á í leikjum liðana. Það hélt áfram í sumar þegar Halldór Árnason var þjálfari ef marka má Kára.
„Það var alveg hiti, ég ætla að commenta sem minnst um það. Ég ætla að segja sem minnst, það var eitthvað þarna,“ sagði Kári í Fótbolta.net þættinum án þess að segja hvað það var.
Kári sagði einnig að umræða um að Víkingur væri gróft lið hefði smitast til dómara í sumar og það hefði haft áhrif á leik Víkings.
„Við vorum neðstir í brotum, vorum neðstir í öllu þessu. Fæst gul spjöld, fæst rauð spjöld en samt var vegið að okkur í umræðu. Við spiluðum fastan leik, mér fannst frá byrjun móts þá mátti ekki gera neitt. Þá var gult spjald fyrir andskotann ekki neitt,“ sagði Kári
„Út af umræðu og hvernig dómgæslan var, þá drógu menn úr því af þeir vildu ekki vera i banni allt mótið.“