Þar segir Einar frá því þegar hann fór í verslun fyrir skömmu og tók þar eftir manni sem var að tína vörur í innkaupakörfuna sína.
„Þegar ég kem á kassann stuttu seinna til að borga sé ég hvar maður þessi situr á stól við dyrnar. Þar sem ég kannaðist lítið eitt við manninn spurði ég hvort hann vantaði far. Þá tjáði hann mér að hann væri peningalaus, væri kominn á gistiskýli, ætti orðið ekkert nema tötraleg fötin sem hann klæddist og væri að veikjast illilega af fráhvörfum drykkjusýki. Vörurnar voru enn ógreiddar á kassanum, þar sem hann átti ekki peninga til að greiða fyrir þær,“ segir hann.
Einar bætir við að afgreiðslukona hafi komið til þeirra og tjáð honum að maðurinn væri að bíða eftir sjúkrabíl til að fá viðeigandi hjálp.
„Þetta var Íslendingur, allslaus, niðurbrotinn og sagðist vera svo syndugur að hann fengi enga fyrirgefningu,“ segir hann.
Í grein sinni veltir hann fyrir sér hvernig ríki og sveitarfélög fara með fólk sem hefur greitt sína skatta og skyldur allt sitt líf. Segist hann í þessu samhengi hugsa til hælisleitenda sem dvelja meðal annars á hótelherbergjum í Reykjavík og víðar.
„Gistiskýlin eru lokuð frá klukkan 10-17 á daginn og þá ráfar þetta fólk um eða kemur sér fyrir á ómanneskjulegum stöðum sem útigangsfólk í hvaða veðri sem er, við slæma heilsu og sumt mjög veikt,“ segir hann og bætir við að þetta fólk eigi engin önnur úrræði. Hvetur hann íslensk stjórnvöld til að hugsa betur um sitt fólk.