Það kom síðar í ljós að hún dó eftir að hafa fengið heilahimnubólgu B.
Móðir Liviu, Alison Goude, hefur nú biðlað til yfirvalda í Bretlandi að bólusetja ungmenni fyrir þessari hættulegu veiru.
Í Bretlandi eru ungabörn bólusett við heilahimnubólgu af völdum meningókokkum B. En það byrjaði fyrir tæplega áratug og eru því börn og ungmenni fædd fyrir 2015 í hættu að mati Alison.
„Að vita að það er bóluefni þarna úti… það er sárt. Maður er svekktur út í sjálfan sig, hefði ég getað gert eitthvað til að koma í veg fyrir þetta?“ sagði hún.
Í fyrra var tekið í notkun nýtt bóluefni gegn heilahimnubólgu hér á landi. Bóluefni er notað gegn meningókokkum A, C, W og Y. Í frétt RÚV um málið var rætt við Kamillu Jósefsdóttur, yfirlækni bólusetninga hjá landlæknisembættinu.
Hún sagði að það væri ekki bólusett fyrir heilahimnubólgu B og að hún teldi ekki ástæðu til að bólusetja gegn því afbrigði eins og er. Eitt tilfelli greindist í fyrra og árinu þar á undan.
„Við í rauninni bregðumst ekki við einu stöku tilfelli. Oftast er um að ræða einstaklinga sem hafa verið á ferðalagi erlendis. En ef að það fer að bera meira á þessu en hefur verið þá þarf að bregðast við,“ sagði hún.