Bæjarráð Vestmannaeyja lýsti á fundi ráðsins í gær yfir mikilli óánægju með bréf Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga til bæjarins. Í bréfinu var gerð athugasemd við hlutfall skulda bæjarsjóðs af tekjum og því beint til bæjarstjórnar að grípa til aðgerða. Bæjarráð segir ekkert tillit hafa verið tekið til þess í bréfinu að fyrst og fremst sé um að ræða lífeyrisskuldbindingar og að ekki séu til staðar neinar vaxtaberandi skuldir við lánastofnanir, hjá bæjarsjóði. Dró nefndin nokkuð í land eftir að bærinn gerði athugasemdir við bréfið. Segist bæjarráð hreinlega velta því fyrir sér hver tilgangurinn með bréfaskriftum af þessu tagi og með sjálfri nefndinni eiginlega sé í ljósi þess að ekkert í lögum eða reglugerðum sem gefi tilefni efnis bréfsins.
Þetta kemur fram í opinberri fundargerð fundarins, sem fram fór í gær, á heimasíðu bæjarins en einnig er bréf nefndarinnar til Vestmannaeyjabæjar birt. Í bréfinu kemur fram að samkvæmt ársreikningi bæjarins fyrir síðasta ár sé hlutfall skulda A-hluta, þ.e.a.s. bæjarsjóðs, 105 prósent af tekjum en samkvæmt lágmarksviðmiði nefndarinnar eigi þetta hlutfall ekki að vera hærra en 100 prósent. Í bréfinu er lögð áhersla á að bæjarstjórn Vestmannaeyja leiti nú þegar leiða til að uppfylla þetta viðmið.
Bréfið er í líkingu við það sem fleiri sveitarfélög, sem uppfylla ekki kröfur um skuldahlutföll, hafa fengið frá nefndinni og ekki er vikið neitt að því í bréfinu hvers eðlis skuldirnar kunni að vera.
Bréfið er dagsett 1. október síðastliðinn en í fundargerð bæjarráðs kemur fram að í kjölfarið hafi verið gerðar athugasemdir við nefndina sem hafi loks sent bænum annað bréf. Síðara bréfið er dagsett 22. október og er einnig birt með fundargerðinni. Í því kemur meðal annars fram að nefndin leggi sérstaka áherslu á A-hluta í rekstri sveitarfélaga þar sem hann sé fjármagnaður með skattfé. Það sé mat nefndarinnar að æskilegt sé að sveitarfélög setji sér markmið um skuldahlutfall A-hluta til að hafa svigrúm til að takast á við óvænta atburði. Það sé í eðli þessarar tölu að hún geti verið misjöfn milli sveitarfélaga.
Nefndin segir að í fyrra bréfinu hafi þetta viðmið verið sett fram sem ábending án þess að það fæli í sér athugasemdir af hálfu nefndarinnar.
Að beiðni stjórnenda bæjarins tók endurskoðunarfyrirtækið KPMG saman minnisblað, sem sömuleiðis er birt með fundargerðinni, um bæði bréf nefndarinnar til Vestmannaeyjabæjar. Segir í minnisblaðinu að ekki hafi verið hægt að skilja fyrra bréfið öðruvísi en að verið væri að gera athugasemd við fjárhagsstöðu bæjarins.
Í minnisblaðinu er ítrekað að viðmið nefndarinnar um skuldahlutfall A-hluta sé ekki bundið í lög eða reglugerðir og að í ársskýrslu nefndarinnar komi fram að skoða verði viðmiðin í samhengi þar sem rekstur sveitarfélaga geti verið misjafn.
Í minnisblaðinu kemur jafn framt fram að hlutfall lífeyrisskuldbindinga bæjarsjóðs Vestmannaeyja af tekjum sé 77 prósent en eins og áður segir er hlutfall heildarskulda af tekjum 105 prósent en nefndin miðar við að hámarkið sé 100 prósent.
Í minnisblaðinu segir að í ljósi áherslu nefndarinnar á að skoða verði viðmið hennar um rekstur sveitarfélaga heildstætt megi draga í efa að fyrra bréf nefndarinnar til Vestmannaeyjabæjar hafi í raun og veru verið í samræmi við þessar áherslur.
Öll þessi bréfaskipti voru tekin fyrir á fundi bæjarráðs í gær og óhætt er að segja að niðurstaða ráðsins sé harðorð í garð Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Segir bæjarráð hreinlega efast um að nokkur tilgangur sé með nefndinni:
„Bæjarráð veltir því fyrir sér hver tilgangur nefndarinnar sé sem sendir sveitarfélagi bréf með ábendingum um að huga að skuldahlutfalli sem er ekki tilkomið af lántökum heldur lífeyrisskuldbindingum og þ.a.l. ógerlegt fyrir sveitarfélagið að bregðast við því. Þetta kallar óhjákvæmilega á spurningar um tilgang þessarar nefndar og hvers vegna hún sé að setja sér viðmið sem enga stoð eiga í lögum.“
Það virðist þó ekki hafa verið full eining um þetta í ráðinu því fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem er í minnihluta í bæjarstjórn sagði í bókun að bréf nefndarinnar sé þörf áminning fyrir bæinn um að gæta aðhalds í rekstrinum. Benti hann einnig á að þótt bæjarsjóður beri engar vaxtaberandi skuldir við lánastofnanir þá geri lífeyrisskuldbingarnar honum erfiðara fyrir við að taka lán.
Framboðin Eyjalistinn og Fyrir Heimaey eru hins vegar í meirihluta í bæjarstjórn og fulltrúar þeirra í bæjarráði andmæltu bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Í bókun þeirra segir meðal annars að sveitarfélagið hafi ekki tekið lán síðan 2009 og ekki sé fyrirhugað að gera það heldur á næsta ári. Bærinn sé vel innan krafna reglugerðar um að skuldahlutfall A-, og B-hluta af tekjum sé mest 150 prósent en hjá Vestmannaeyjabæ sé það 68 prósent. Ábending nefndarinnar um viðmið um skuldahlutfall A-hlutans byggi ekki á neinum reglugerðum og því sé hreinlega ekkert á bak við fyrra bréf nefndarinnar til bæjarins eins og fram komi í minnisblaði KPMG.