Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2025 var lögð fram í gær og fóru í kjölfarið fram oddvitaumræður í borgarstjórn. Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, beindi þar sjónum sínum meðal annars að rekstri skrifstofu borgarstjóra og vakti þar sérstaka athygli á liðunum Samskiptamál, markaðs- og viðburðamál, almannatengsl og auglýsingar. Benti hún á að á næsta ári muni þessir málaflokkar kosta borgarbúa tæpar 300 milljónir króna.
Alls er gert ráð fyrir að 198 milljónir fari í samskiptamál, 97 milljónir í markaðs- og viðburðamál, 2,7 milljónir í almannatengsl og 1,6 milljónir í auglýsingar. Samtals 299,3 milljónir króna.
Sagði Hildur að fjárhæðin skyti skökku við þegar einu hagræðingaraðgerðir meirihlutans hafi snúið að skertri þjónustu við íbúa, en við blasi fjöldi vannýttra tækifæra til að skera niður í yfirbyggingunni. „Hvernig væri að tryggja hér gott úrval bóka fyrir íslensk grunnskólabörn og rúman opnunartíma sundlauga, en skera niður þennan grobbsjóð borgarstjóra? Þessi forgangsröðun er með ólíkindum“, sagði Hildur að lokum.