Bandaríski tónlistarmaðurinn Adam Lambert vakti mikla athygli í gær í viðtali í morgunþættinum Today sem sýndur er á ABC.
Lambert var þar mættur til að ræða hlutverk sitt í söngleiknum Cabaret, en Lambert tók við hlutverki Emcee þann 16. september, en breski leikarinn Eddie Redmayne hafði áður verið í hlutverkinu. Er þar um að ræða fyrsta hlutverk Lambert á Broadway.
Þyngdartap Lambert vakti athygli, en hann greindi frá því í mars að hann væri á þyngdarstjórnunarlyfinu Mounjaro. „Ég hef verið á Mounjaro, í hvað, átta mánuði? Og ég hef misst næstum 30 kíló. Mér líður ótrúlega vel. Ég borða en ég borða léttara og ég borða minna. Og ég veit að það er mikið rætt um: „Þú ert að taka lyfið frá sykursýkissjúklingum. Ég meina, í hreinskilni sagt, það er mál lyfjaiðnaðarins, ekki mitt, þeir þurfa að halda í við framleiðsluna,“ sagði Lambert á Instagram í mars. Og bætti við: „Mér líður betur, mér finnst ég hafa meira sjálfstraust. Líkama mínum líður betur. Ég hef meiri stjórn á meltingarkerfinu.“
Lambert sagðist áður hafa notað þyngdarstjórnunarlyfið Ozempic,sem hann hefði fengið uppáskrifað til að koma jafnvægi á blóðsykurinn, en hann hefði hætt á því lyfi sökum alvarlegra aukaverkana.
Lambert sem er 42 ára er í dag söngvari bresku rokksveitarinnar Queen og hefur verið með hléum frá árinu 2014. Hann var orðinn sviðsvanur áður en hann vakti heimsathygli með frammistöðu sinni og sigri í áttundu þáttaröð American Idol árið 2009.