Því er spáð að Afturelding mæti til leiks með stjörnuprýtt lið í Bestu deildina næsta sumar, liðið mun þá í fyrsta sinn í sögunni leika á meðal þeirra bestu í karlaflokki.
Nokkur stór nöfn eru nefnd til sögunnar þegar kemur að því að styrkja lið Aftureldingar. „Segðu mér frá þessu Galatacio Liði Aftureldingar,“ sagði Hjörvar Hafliðason stjórnandi Dr. Football í dag.
Hrafnkell Freyr Ágústsson sérfræðingur þáttarins sagði marga öfluga leikmenn vera á óskalista liðsins.
„Þeir eru að reyna að fá alla sína menn heim, Axel Óskar, bróðir hans Jökul, Eyþór Wöhler og týnda soninn eins og þeir kalla hann, Kristinn Frey Sigurðsson,“ sagði Hrafnkell.
Axel Óskar Andrésson rifti samningi sínum við KR á dögunum og Jökull bróðir hans rifti samningi sínum við Reading, Jökull varði mark Aftureldingar seinni hluta sumarsins.
Eyþór Wöhler er einn þeirra sem má fara frá KR en Kristinn Freyr ólst upp í Aftureldingu. „Hann fór snemma í Fjölni, hann er að byggja sér í Mosó og opna smíðafyrirtæki með pabba sínum. Þá er erfitt að vera í atvinnumennsku hjá Val þegar þú ert að byggja upp fyrirtæki,“ sagði Hrafnkell og bætti við.
„Hvort þeir fái þá alla, þeir hafa áhuga á öllum.“