Maður á Vesturlandi hefur verið sakfelldur fyrir brot í nánu sambandi og vopnalagabrot vegna ofbeldis sem hann beitti eiginkonu sína og börn. Dómur í málinu var kveðinn upp í Héraðsdómi Vesturlands þann 1. nóvember, en í ákæru er maðurinn sakaður um margvíslegt ofbeldi gegn fjölskyldu sinni. Hann var sýknaður af hluta ákæruliða vegna skorts á sönnunum en sakfelldur í öðrum liðum og í einhverjum hluta játaði hann sök.
Maðurinn var meðal annars sakfelldur fyrir að hafa ógnað konunni með haglabyssu. Hringt var í neyðarlínuna á meðan þessu stóð og var Sérsveit Ríkislögreglustjóra kölluð til og send frá Reykjavík. Er sérsveitin kom á áfangastað hóf hún samningaviðræður við manninn sem leiddu til þess að hann var handtekinn.
Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa ógnað konunni með byssunni, sem og fyrir vopnalagabrot. Var meðal annars hafður til hliðsjónar framburður konunnar sem óttaðist mjög um líf sitt og sagði: „Ég kvaddi börnin mín í huganum.“
Maðurinn var einnig sakfelldur fyrir að hafa beitt tvö börn sín ofbeldi. Sonur hjónanna gaf skýrslu um þetta í Barnahúsi og er hún dapurlegur vitnisburður um ofbeldisfullt ástand á heimili fjölskyldunnar. Um þetta segir í texta dómsins:
„Brotaþoli, [D…], sonur ákærða og [A…], gaf skýrslu fyrir dómara í Barnahúsi … 2023 og lýsti atvikum þannig að hann og systir hans hefðu verið í rúminu hans að horfa á iPad þegar ákærði og móðir þeirra byrjuðu að rífast inni í stofunni. [D…] lýsti því að ákærði hefði viljað fara að sofa en móðir hans hefði ekki leyft það og þá hefði ákærði orðið mjög reiður. Ákærði hefði þá ýtt móður hans niður og stóll hefði brotnað í átökunum. [D…] greindi einnig frá því að ákærði hefði þá farið að kyrkja móður hans, hann hefði sett höndina á hálsinn á móður hans og kallað hana; „helvítis hóran þín“. Eftir það hefði ákærði snúið sér að systur hans, [B…], og kyrkt hana á sama hátt. [D…] sagðist hafa hlaupið til og reynt að stoppa ákærða og reynt að toga hann með því að taka í hálsinn á honum. Þegar það hefði ekki tekist hefði hann tekið símann sinn til að hringja í lögregluna en síminn slökkt á sér óvænt þrátt fyrir að vera ekki batteríslaus. [D…] greindi einnig frá því að hann hefði meitt sig í bakinu þegar ákærði hefði ýtt honum af sér með báðum höndum. Hann lýsti því að ákærði hefði hent honum af sér og að hendurnar á ákærða hefðu lent í andliti hans.“
Þrátt fyrir að vera sakfelldur í meirihluta ákæruliða hlaut hinn ákærði vægan dóm, eða þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Dóminn má lesa hér.