Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, var sá þingmaður sem talaði mest á Alþingi á kjörtímabilinu sem senn rennur sitt skeið. Björn Leví hélt alls 1.793 ræður á kjörtímabilinu og talaði í 5.046.45 mínútur samtals eða 84 klukkustundir.
Til samanburðar greindi DV frá því gær að Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði talað minnst á kjörtímabilinu. Alls hafði Ásmundur haldið 137 ræður á þinginu síðastliðin fjögur ár og alls talað í 359.29 mínútur, sem gera rétt tæplega 6 klukkustundir í heildina.
Eins og venja er voru það þingmenn minnihlutans, og þá sérstaklega Pírata, sem voru langduglegastir í að heimsækja ræðustól þingsalsins. Sá sem talaði næst mest var Gísli Rafn Ólafsson, Pírati, en hann hélt 1.432 ræður á kjörtímabilinu og talaði samtals í 4.270.98 mínútur.
Í þriðja sæti var Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, en hann steig í 1.254 á stokk og talaði í 4.153.77 mínútur. Andrés Ingi Jónsson og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmenn Pírata, skipuðu svo 4-5. sæti listans. Andrés Ingi hélt 1.243 ræður og talaði í 3.898.94 mínútur og Arndís Anna hélt 1.185 ræður og talaði í 3.508.54 mínútur.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, var sá ráðherra sem talaði langmest. Alls hélt Bjarni 809 ræður á kjörtímabilinu og talaði í 2.172.87 mínútur. Til samanburðar talaði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, minnst en hún hélt ræður í alls 212 skipti á kjörtímabilinu og alls í 532.79 mínútur.
Sá ráðherra sem tjáði sig næst mest var Bjarki Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra, sem hélt 492 ræður og talaði í 1.532.09 mínútur. Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra, hreppti svo bronsið en hann hélt alls 559 ræður en talaði samtals í 1.522.56 mínútur.