Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um öskrandi mann með hníf í nótt. Maðurinn var handtekinn og reyndist hann í annarlegu ástandi en þó ekki vopnaður.
Mikill erill var hjá lögreglunni í gærkvöld og nótt eins og oft á þessum tíma vikunnar.
Í miðborginni var tilkynnt um innbrot í bíl. Eigandinn kom á lögreglustöðina að Hlemmi og gat gefið upplýsingar sem leiddu til þess að lögregla endurheimti hluta þýfisins. Málið er nú í rannsókn.
Þá var eitthvað um umferðarslys, bæði á bílum og rafskútum.
Einum bíl var ekið á gám og var ökumaðurinn í annarlegu ástandi. Var hann handtekinn. Tveir aðrir voru handteknir eftir að bíl var velt í íbúðarhverfi. Voru þeir báðir í bílnum og voru vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknarhagsmuna.
Í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði var tilkynnt um að keyrt hefði verið á vegfaranda. Virtist hann ekki mikið meiddur við skoðun á vettvangi.
Í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi varð umferðarslys þegar tveir bílar lentu saman. Eitthvað var um meiðsli á farþegum en alvarleiki meiðslanna er ekki kunnur á þessari stundu.
Þá voru nokkrir stútar teknir og ökumenn án ökuréttinda.
Tilkynnt var um eld í íbúðarhúsi. Bæði slökkvilið og lögregla voru kölluð að og tókst að ráða niðurlögum eldsins.