Níu prósent stýrivextir jafngilda ofurskattheimtu sem vegur þyngra en skattahækkanir sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt á almenning í landinu síðustu 11 árin. Stefnumál Samfylkingarinnar um umbætur í húsnæðis-, kjara- og heilbrigðismálum kalla ekki á hærri skatta á vinnandi fólk í landinu. Nóg er að fara betur með opinbert fé, loka glufum í fjármagnstekjuskattskerfinu og leggja á skynsamleg auðlindagjöld, auk þess sem verðmætasköpun verður aukin. Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar og oddviti í Reykjavík suður, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.
„Það er ekki þannig að samfylkingin hafi boðað einhverja 70 milljarða skattahækkun, það er skáldskapur,“ segir Jóhann Páll.
En hvaða hugmyndir eruð þið með varðandi tekjuöflun?
„Það þarf að nýta betur opinbert fé. Við höfum horft á það þannig að við erum með þríþætta nálgun. Eitt er að fara betur með opinbert fé. Í öðru lagi að ráðast í skynsamlegar og sanngjarnar skattabreytingar. Þá erum við að tala um að draga úr þessu misræmi þegar kemur að skattlagningu fjármagns og vinnuafls með því m.a. að loka þessum skattaglufum sem felast í fjármagnstekjuskattskerfinu eins ófullkomið og það er núna. Svo eru það auðlindagjöldin,“ segir Jóhann Páll.
„Ef við horfum svolítið fram í tímann og ef við höldum áfram að auka verðmætasköpun í sjávarútvegi og þegar kemur að fiskeldi og þegar kemur að orkuöflun þá verða auðlindagjöldin af þessu umtalsverð eftir því sem fram líða stundir. Það grógramm sem við höfum lagt á borðið í þessum kosningum – þá er ég að tala um húsnæðis- og kjaramála útspilið okkar sem við erum nýbúin að kynna og ég er að tala um heilbrigðismála útspilið okkar – ef við horfum bara til næstu fjögurra ára, það sem við höfum lagt á borðið fyrir þessar kosningar, það kallar ekki á að farið verði í skattahækkanir á vinnandi fólk á Íslandi, það er ekki þannig.“
Hann segir að fjármögnun þessara verkefna felist í því í fyrsta lagi að fara betur með opinbert fé, í öðru lagi með ofangreindum tekjuöflunartillögum og í þriðja lagi með aukinni verðmætasköpun. „Nú er staðan þannig, ef við bara horfum á þróunina frá 2013, frá því að Sjálfstæðisflokkurinn kom inn í fjármálaráðuneytið, ef við skoðum gögn frá Hagstofunni, gögn um skattbyrði launafólks og skattbyrði allra tekjuhópa, þá er það einfaldlega þannig að þessi beina skattbyrði, tekjuskattsbyrði, hún hefur þyngst á þessum tíma, nánast á hverju einasta ári. Þetta þýðir einfaldlega að Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að vera að hækka skatta á almenning í landinu, það er helst efsta tíundin sem hefur fengið skattalækkanir, að skattbyrðin hafi lést aðeins m.a. af því að auðlegðarskatturinn rann sitt skeið og sett ákveðin frítekjumörk í fjármagnstekjurnar, það eru ákveðin svona atriði sem valda því.“
Jóhann Páll segir álögur hafa verið að aukast og svo verði auðvitað að horfa til þeirrar ofurskattheimtu sem felist í níu prósenta stýrivöxtum, sem vegi í raun miklu þyngra en en hin beina aukna skattbyrði. „Þetta eru í rauninni 40 milljarðar í aukinn vaxtakostnað fyrir heimilin ef við skoðum tímabilið 2021-2024. Ég veit ekki hvað fólk hefði sagt ef Sjálfstæðisflokkurinn og þeir flokkar sem voru þá að sækjast eftir endurnýjuðu umboði hefðu mætt og sagt við fólkið í landinu: Þið munið þurfa að borga 40 milljarða í viðbót í vaxtakostnað á okkar vakt.. Í staðinn lofuðu þau því ranglega að vextir yrðu hóflegir, að við værum að sigla inn í einhvers konar varanlegt lágvaxtaskeið.“ Hann segir nýleg uppgjör bankanna sýna hvert þessir vextir renni.