Því er haldið fram að Freyr Alexandersson þjálfari Kortrijk vilji ólmur taka við íslenska landsliðinu. Þetta kom fram í Dr. Football í dag.
Sú saga gengur fjöllum hærra að KSÍ ætli að segja upp samingi Age Hareide sem landsliðsþjálfara í lok mánaðarins.
Uppsagnarákvæði er í samningi Hareide og Gunnar Birgisson íþróttafréttamaður RÚV segir frá því hver sé líklegastur til að taka við.
„Maður heyrir að Freyr Alexandersson sé fyrsti kostur,“ sagði Gunnar og sagði að Arnar Gunnlaugsson væri næstur í röðinni.
Hjörvar Hafliðason segir þá sögu heyrast að Freyr vilji ólmur fá starfið.
„Það sem ég heyri frá fólki að Freysi vill þetta mjög mikið, að við séum með einstaka kynslóð af leikmönnum og nú sé tækifæri til að gera eitthvað.“