Lög sveitarinnar hafa hljómað í eyrum landsmanna seinustu misseri en ný plata sveitarinnar, 1918, hefur notið mikilla vinsælda frá útgáfu hennar fyrr í þessum mánuði.
Fyrsta þáttaröðin endaði með dramatískum hætti þar sem Aron Can stakk af með alla peninga sveitarinnar og hinir meðlimir sveitarinnar sátu eftir með sárt ennið og vissu ekkert hvað varð um vin þeirra, Aron Can.
Hvar er Aron? Hvar eru peningarnir? Hvað gera strákarnir núna?
„Við hjá Símanum erum full tilhlökkunar að frumsýna glænýja þáttaröð af IceGuys. Strákarnir eru nýbúnir að selja upp fimm Laugardalshallir fyrir jólatónleikana sína og því tilvalið fyrir IceGang aðdáendahópinn að byrja snemma með sannarlega stórkostlegri þáttaröð. Gleði og hlátur hafa einkennt IceGuys frá byrjun og er þessi þáttaröð engin undantekning. Við getum ekki beðið eftir því að miðla gleðinni beint heim í stofu,“ segir María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans
Horfðu á stikluna hér að neðan.
Þættirnir eru sem fyrr í leikstjórn Allans Sigurðssonar, Hannesar Þór Arasonar og Hannesar Þórs Halldórssonar, en fyrirtækið Atlavík sem er í eigu leikstjóranna fer með framleiðsluna á þáttunum. Handritshöfundur þáttana er svo enginn annar en Sóli Hólm.
„Það var stór og ísköld áskorun að kafa dýpra í næsta fasa Iceguys sögunnar eftir rússíbana síðasta árs en það hafðist og hér erum við, Iceguys 2. Margir mánuðir fóru í þróunarferli, gríðarlegt púður var lagt í tökurnar og það er erfitt að lýsa metnaðinum og drifkraftinum sem liggur á bak við gerð þessara þátta. IceGuys heimurinn er óútreiknanlegur og þar getur allt gerst. Í seríu 2 skiptum við um gír og keyrum allt í botn og við vonum að áhorfendur upplifi og skynji ástríðuna sem við lögðum öll í þetta verkefni,“ segir Hannes Þór Halldórsson, hjá Atlavík.
Þetta er sjötta íslenska leikna þáttaröðin sem Síminn frumsýnir á árinu, en Sjónvarp Símans er að frumsýna mest allra af innlendu leiknu efni annað árið í röð. Áður er búið að sýna Skvíz, Kennarastofan, Gesti, Dimmu og Útilegu.
„Við erum stolt af þeim árangri sem við höfum náð við þróun og uppbyggingu Sjónvarps Símans Premium sem hefur aldrei haft fleiri áskrifendur en nú. Við erum sannfærð um að áhersla okkar á vandaða framleiðslu á innlendu leiknu sjónvapsefni spili lykilhlutverk í vinsældum veitunnar meðal landsmanna,“ segor María Björk.