fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fréttir

Geir Haarde segir Steingrím J. hafa hótað sér í hruninu og verið höfuðpaurinn í Landsdómssamsærinu

Ritstjórn DV
Föstudaginn 1. nóvember 2024 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Geir Haarde fyrrverandi forsætisráðherra var í viðtali í Kastljósi á RÚV í gærkvöldi í tilefni af útgáfu ævisögu hans. Geir var eins og flestir ættu að muna að forsætisráðherra þegar bankahrunið dundi yfir Ísland með miklum látum haustið 2008. Í bókinni fjallar hann meðal annars um sín samskipti við aðra stjórnmálaleiðtoga og Davíð Oddsson þáverandi seðlabankastjóra, í hruninu. Í viðtalinu kom fram að einna hörðustu gagnrýnina í bókinni fær Steingrímur J. Sigfússon þáverandi formaður Vinstri grænna en Geir segir Steingrím hafa hótað sér því að flokkur hans myndi standa fyrir fjöldamótmælum en Geir segir flokkinn hafa átt þátt í hinum miklu mótmælum sem urðu í upphafi árs 2009. Geir sakar Steingrím J. einnig um að hafa verið höfuðpaurinn í samsæri um að draga þann fyrrnefnda fyrir Landsdóm eftir að hann lét af embætti.

Hafi getað stöðvað Landsdómsmálið

Baldvin Þór Bergsson sem tók viðtalið spurði Geir hvað hann hefði fyrir sér í því að Steingrímur hefði borið mestu ábyrgðina á Landsdómsmálinu en samþykkt var á Alþingi eftir að ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna tók við völdum að draga Geir fyrir Landsdóm:

„Hann var náttúrulega formaður í Vinstri grænum, öðrum stjórnarflokknum og hefði getað stöðvað þetta á einu augnabliki ef hann hefði kært sig um.  Atli Gíslason (þáverandi þingmaður Vinstri grænna, innsk. DV) reyndur hæstaréttarlögmaður var þarna formaður í þessari nefnd ( sem mælti með ákæru á hendur Geir fyrir Landsdómi, innsk. DV). Ég nefni þá tvo sérstaklega án þess að ég vilji hér fara að ræða hlut einstakra manna í þessum þætti. Þetta er allt saman lagt upp í bókinni og þeir sem bera ábyrgðina á því hvernig þetta var gert verða að gjöra svo vel að horfast í augu við hana.

Ýmsir af þeim sem tóku þátt í þessu létu teyma sig út í þetta, óreyndir þingmenn og aðrir, hafa komið að máli við mig og beðið mig afsökunar á framkomu sinni í þessu máli. Það liggur alveg fyrir að það fólk myndi ekki greiða atkvæði með þessu í dag. Ég held reyndar að eiginlega enginn eða mjög fáir sem nálægt þessu komu á sínum tíma myndu vilja láta hafa sig í það á nýjan leik með einhverjum hætti að höfða nýtt svona mál. Þetta mál verður sögulegt, á spjöldum réttarfars- og stjórnmálasögunnar á Íslandi. Það voru gerð þarna alls kyns mistök.“

Vildi þjóðstjórn annars yrðu mótmæli

Baldvin Þór sagði við Geir að lítið bæri í bókinni á harðri gagnrýni í garð annarra stjórnmálamanna en öðru máli gegni um Steingrím J. sem hafi samkvæmt Geir sótt það mjög fast að mynduð yrði þjóðstjórn eftir að hrunið skall á. Baldvin Þór reifar í spurningu sinni fullyrðingar Geirs í bókinni um samskipti hans við Steingrím J. þessa daga haustið 2008:

„Þú nefnir það líka að hann hafi í september 2008 komið að máli við þig út af mögulegri þjóðstjórn. Þar hafi hann sagt að Vinstri grænir kynnu ýmislegt eins og að skipuleggja mótmæli. Maður fær ekki skilið þetta öðruvísi en að þú sért í rauninni að segja að mótmælin sem að kannski ná hámarki þarna í janúar 2009 hafi verið að undirlagi VG.“

Geir segir alveg ljóst að Vinstri grænir beri sína ábyrgð á þessum mótmælum og að Steingrímur hafi sannarlega hótað honum:

„Það var það auðvitað að einhverju leyti en auðvitað snérist þetta síðan upp í miklu almennari óánægju hjá almenningi. Það þurfti ekki annað en að skoða myndir í blöðum. Menn lögðu frá sér kröfuspjöldin inn á skrifstofur VG þarna í Suðurgötunni meðan á þessu stóð. Það er kannski ekkert aðalatriðið. Hann var auðvitað með hótanir í þessu samtali án þess að við getum kannski nánar farið út í það hér.“

Ljóst er þó að Geir er ekki vel við að viðhafa harða gagnrýni í garð annarra. Geir segir að maður sem hafi lesið hluta af handriti bókarinnar yfir hafi sagt við hann:

„„Heyrðu Geir, mér finnst þú ekki tala nógu illa um fólk.“ Ástæðan fyrir því er bara sú að mér er illa við að tala illa um fólk. Ég vil frekar láta alla njóta sannmælis.“

Viðtal Kastljóss við Geir Haarde má sjá hér.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu