fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
Eyjan

Fauk í Bjarna í gær þegar talið barst að umdeildu málefni – „Hvers konar spurning er þetta?“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Fimmtudaginn 31. október 2024 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leiðtogar hægri flokka sem bjóða sig fram til Alþingis tókust á í Pallborðinu á Vísi í gær. Þangað mættu Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og Arnar Þór Jónsson, formaður Lýðræðisflokksins.

Um eins konar kappræður var að ræða sem fóru að mestu vel fram þar til undir lokin þegar talið barst að þungunarrofi en þar hitnaði forsætisráðherra nokkuð í hamsi en ljóst er að allir gestir pallborðsins hafa sterkar skoðanir á málefninu.

Umræðunar hafa vakið nokkra athygli og fjallaði þingmaðurinn Sigmar Guðmundsson um þær í færslu og því ekki úr vegi að gera grein fyrir umræðunni fyrir þá sem ekki hafa séð Pallborðið.

Sjá einnig: Sigmar furðar sig á viðbrögðunum:„Elín Margrét lét þá ekki slá sig út af laginu“

Bjarni grípur fram í

Undir lok þáttar útskýrði Elín Margrét Böðvarsdóttir, fréttamaður, að næst yrði farið yfir nokkur mál og voru frambjóðendur beðnir um hnitmiðuð svör, helst bara já eða nei.

Fyrsta spurningin varðaði þungunarrof, sem áður hafði komið til umræðu í þættinum. Elín Margrét beindi orðum sínum að Bjarna og Sigmundi Davíð og tók fram að það liggi fyrir hvernig þeir greiddu atkvæði með frumvarpi um þungunarrof árið 2019, þegar konur fengu réttinn til að taka ákvörðun um þungunarrof fram að 22. viku meðgöngu. Bæði Sigmundur og Bjarni kusu gegn frumvarpinu.

Bjarni skaut þá inn áður en Elín hafði fengið að bera fram spurningu sína:

„Ég styð þungunarrof. 20 vikum gat ég staðið með, en mér fannst rökin með 22 vikum ekki hafa verið sannfærandi…“

Fauk í forsætisráðherra

Elín hélt ótrauð áfram og bar fram spurningu sína: „Já eða nei, ef greidd yrðu atkvæði um þetta frumvarp í dag, þar sem talað er fyrir rýmkuðum heimildum til þungunarrofs fyrir konur. Mynduð þið styðja eða ekki.“

Bjarni svaraði: „Nei ég stend með minni atkvæðagreiðslu. Ég stend með 20 viknareglunni, bara 100 prósent….“

Elín spurði hvort hann myndi þá aftur kjósa gegn því að rýmka réttinn til 22. viku meðgöngu ef kosið yrði um það í dag, en þá virtist fjúka nokkuð í forsætisráðherrann.

„Um hvað ertu eiginlega að spyrja?“ spurði Bjarni og hristi hausinn og hækkaði svo róminn: „Ég er búinn að tjá mig, þú ert að spyrja mig hvort ég myndi aftur greiða eins…Hvers konar spurning er þetta?“

Elín Margrét útskýrði að þetta væri spurning til að athuga hvort afstaða þín hafi að einhverju leyti breyst.“

Bjarni talaði yfir Elínu: „Það liggur fyrir hver afstaða mín er…“

Fréttakonan hélt áfram og spurði hvort Bjarni vildi þá frekar sjá réttinn til þungunarrofs þrengdan aftur.

Bjarni: „Myndirðu spyrja mig aftur sömu spurningarinnar ef ég kæmi ekki með svar?

Elín: Ég er að spyrja þig Bjarni…

Bjarni: Ég meina hvað..?! Ég er búinn að tjá minn hug, ég er búinn að segja þér. Ég stend með 20 vikna reglunni….

Elín: Já?

Bjarni: .. mér fannst rökin fyrir því að fara í 22 vikur ekki nægilega sannfærandi og það var ástæðan fyrir því að ég greiddi atkvæði eins og ég gerði. En að halda því fram,

Elín: Ég er ekki að halda neinu fram….

Bjarni: Nei en það gerði Þorgerður hérna rétt áðan. Að halda því fram að maður standi ekki með konum sem vilja taka sjálfar ákvarðanir um sinn líkama, það finnst mér í raun og veru ekki boðleg nálgun í ljósi þess hver mín afstaða er í þessu máli.

Þorgerður Katrín: „Já þú greiddir atkvæði á móti.“

Sigmundur enn á móti

Elín beindi sömu spurningu til Sigmundar Davíðs.

„Nei, 22 vikur eru alltof mikið. Börn hafa fæðst lifandi eftir 22 vikur og orðið að fullorðnum einstaklingum. Þetta er allt spurning um eðlileg mörk og það er óþarfi fyrir okkur að setja heimsmet í því hversu lengi fóstureyðingar eru leyfðar.“

Elín spurði þá að ef Sigmundur kæmist til valda, myndi hann þá þrengja aftur að réttinum til þungunarrofs.

Bjarni skaut þá inn: „Það er enginn að tala um það“

Sigmundi virtist þarna fallast hendur. „Nei það er enginn að tala um að þrengja neinn rétt. En ég bara rifja það upp á hvaða grunni þessi umræða var á þessum tíma. Við vorum með forsætisráðherra sem lýsti því ítrekað yfir í þinginu að það væri bara rétt að leyfa fóstureyðingar fram á FÆÐINGU BARNS.  Og menn ákváðu bara að láta eins og þeir hefðu ekki séð þetta og ekki heyrt þetta en þetta var planið á umræðunni.“

Arnar skilur ekki hvers vegna þetta sé til umræðu

Þá fékk Arnar Þór sömu spurningu.

„Ég er bara að reyna að átta mig á því, í landi þar sem allt logar stafnanna á milli. Efnahagslega, fullveldið er í uppnámi og svo framvegis. Hér fæðast börn sem að fæðingatalan heldur ekki uppi sko eðlilegri fólksfjölgun í landinu, af hverju er þetta kjarnamál að fá að deyða fóstur í móðurkviði, ég átta mig ekki á hvers vegna þetta er svona mikið áherslumál hjá fjölmiðlum. Af hverju þarf allt að snúast um þetta? “

Elín: Það er margt fólk kannski að velta þessu fyrir sér..

Arnar: „Hver er ástæðan? Ég er bara að reyna að átta mig á því. Ég hef sagt það áður og ég skal segja það hvar sem er – ég tel lífið vera heilagt og ég vil ekkert að það sé skert neitt umfram það sem er nauðsynlegt. Ég treysti konum í grunninn til að taka ákvarðanir um þetta, en að færa þetta fram yfir 22 vikur tel ég að fari gegn öllu því sem kalla mætti góða siði og góð viðmið í lífinu, og virðing fyrir lífinu.“

Þorgerður treystir konum

Loks fékk Þorgerður Katrín að svara, en hún var sú eina í pallborðinu sem greiddi atkvæði með frumvarpinu.

Þorgerður: Já ég gerði það, og svo voru menn eitthvað æstir yfir því að ég hafi óvart nefnt Trump hérna áðan..

Bjarni: Það er enginn æstur sko. Hahaha.

Þorgerður: Ég hugsa bara, hjá ok það er bara þannig. Ég treysti konum og málið er bara að konur verða að hafa þetta frelsi. Frelsi gildir líka fyrir konur, ekki bara fyrir karlmenn, heldur konur og öll kyn og það sem skiptir líka máli hér er að nú erum við komin með rannsóknir. Það eru ekkert allir sem vilja styðjast við rannsóknir en rannsóknir og niðurstöður frá því að samþykktum þetta í þinginu, blessunarlega, og til dagsins í dag.

Hvað segja þær okkur? Þær segja okkur að konur fara varlega með þetta dýrmæta frelsi, þær eru mjög ábyrgar um eigin stöðu og nýta frelsið eins og best er á kosið, bæði fyrir þær en líka fyrir ófætt líf barnsins.  Þannig við skulum bara halda áfram, allavega Viðreisn, við treystum konum, við treystum fólki, við treystum einstaklingum.

Sigmundur krafði Þorgerði þá svara um hvort það þurfi ekki að vera einhver mörk og hvaða mörk hún sjái fyrir sér:

Þorgerður: „Við erum með 22 vikur núna í dag…·

Sigmundur: „Já en hvaða mörk…“

Þorgerður: „Ég segi Sigmundur, spurningin var þessi og ég svaraði að ég treysti konum og ég treysti einstaklingnum til að taka ábyrgð á eigin lífi.“

Sigmundur: „Þannig mörkin skipta ekki máli?·

Þorgerður: „Ég myndi frekar treysta konum heldur en þér fyrir atkvæðapakkanum þegar kemur að réttindum kvenna.·

Sigmundur: „Tímamörkin skipta sem sagt ekki máli? Umbúðarmennska·

Samkvæmt tölum úr talnabrunni landlæknis í apríl á þessu ári eru engar vísbendingar um fjölgun hafi orðið á þungunnarrofum eftir að löggjöfin var rýmkuð árið 2019. Þvert á móti áttu flest þungunarrof á árunum 2020-2022 sér stað fyrir 9. viku meðgöngu, eða í 86% tilvika samanborið við 80 prósent á árunum 2017-2018. Þungun var rofin fyrir lok 12. viku í 96% tilvika árin 2020-2022. Innan við 10 þungunarrof voru framkvæmd eftir meira en 20 vikur á þessu tímabili eða 0,6 prósent af heildarfjölda.

Hér má finna Pallborðið í heild sinni en tilvitnuð umræða hefst þegar 42 mínútur og 30 sekúndur eru liðnar af þættinum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!