Peter Crouch, fyrrum leikmaður liða eins og Liverpool, Tottenham og enska landsliðsins, hefur sagt frá ansi athyglisverðri sögu.
Crouch sagði söguna í hlaðvarpsþætti sínum ‘That Peter Crouch Podcast’ en hann ræddi þar um tíma sinn hjá Stoke.
Crouch segir að einn leikmaður Stoke á þessum tíma hafi tekist að plata stuðningsmenn liðsins á samfélagsmiðlum með því að birta myndir og myndbönd af sér á æfingum.
Þessi leikmaður er ekki nafngreindur en miðað við orð Crouch þá fékk hann ekki mikið að spila á þessum tíma.
,,Það var einn leikmaður Stoke sem var að plata stuðningsmenn félagsins og það pirraði mig verulega,“ sagði Crouch.
,,Hann var virkur á samskiptamiðlum og sást þar með einkaþjálfara fyrir utan æfiingasvæðið en þessi maður var ekki sá sami á æfingasvæðinu.“
,,Það sem pirraði mig mest er að fólkið féll fyrir þessu. Þau byrjuðu að spyrja sig: ‘Af hverju fær hann ekki að spila? Hann ætti að vera inná frekar en þessi og hinn.’
,,Leikmennirnir sem þau nefndu voru leikmenn sem lögðu sig fram á æfingum og stóðu sig ágætlega fyrir félagið. Þetta fór gríðarlega í taugarnar á mér.“