Þorvaldur Davíð Kristjánsson leikari missti föður sinn og tengdaföður með tæplega sjö mánaða millibili. Þorvaldur Davíð segist hafa átt ómetanlega tíma með föður sínum fyrir andlátið, en hann sé ekki enn búinn að fara almennilega í gegnum sorgina.
„Eins og margir góðir menn var hann kannski of viðkvæmur fyrir lífið,“ segir Þorvaldur Davíð um föður sinn í samtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1.
Faðir Þorvaldar Davíðs, Kristján Þorvaldsson blaðamaður, varð bráðkvaddur við heimili sitt í Danmörku, 61 árs að aldri, sunnudaginn 6. ágúst 2023. Banamein hans var krabbamein.
Kristján sinnti ýmsum störfum í fjölmiðlum og stýrði meðal annars morgun- og síðdegisútvarpi á Rás 2. Þorvaldur Davíð fór oft með föður sínum í vinnuna og síðar vann hann um tíma við dagskrárgerð á RÚV og var í útvarpsleikhúsinu.
Reiðin þurrkaðist út þegar faðir hans fékk krabbamein
Þorvaldur Davíð segir ýmsar tilfinningar hafa komið upp hjá sér þegar ljóst var að faðir hans átti ekki lengi eftir ólifað, reiði, gleði og sorg sem hann hafði glímt við. „Ég var búinn að fara í gegnum þetta ferli en um leið og pabbi fékk krabbameinið þurrkaðist reiðin út og við mættumst á fallegum stað. Við áttum einn besta tímann okkar saman þegar það gerist. Ég er svakalega þakklátur fyrir að hafa náð þessum tíma með honum eftir að hann fær krabbameinið því það í rauninni setti sambandið okkar aftur á stað sem það hafði kannski ekki verið á síðan ég var lítill.“
Tengdafaðir Þorvaldar Davíðs,Karl J. Steingrímsson athafnamaður, oft kenndur við verslunina Pelsinn, lést á Landspítalanum í Fossvogi fimmtudaginn 22. febrúar 2024, 76 ára að aldri.
Þorvaldur Davíð segir að hann og eiginkona hans, Hrafntinna Viktoría Karlsdóttir lögfræðingur, hafi verið í því ferli að vera syrgjendur en einnig þurft að passa upp á börn sín í sorginni. sem er úr Laugardalnum eins og Þorvaldur. Hjónin eiga þrjú börn, Helgu, ellefu ára, Emelíu sjö ára og Kristján Karl tveggja og hálfs árs.
„Þegar maður er foreldri er maður ekki að syrgja einn heldur að hugsa um hvernig börnin manns eru að syrgja. Maður þarf að fara inn í þeirra tilfinningalíf og átta sig á því hvað þau eru að ganga í gegnum,“ segir Þorvaldur Davíð sem segist enn glíma við sorgina:
„Mér finnst ég ekki enn búinn að ná að fara í gegnum sorgina almennilega. Ég á eftir að fara út og ná í dótið hans pabba og ég hef oft hugsað að það séu einhver lok þar.“
Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér.