Haraldur Haraldsson hefur óskað eftir því að láta af störfum sem framkvæmdarstjóri knattspyrnufélagsins Víkings.
Haraldur tók við sem framkvæmdarstjóri félagsins árið 2010 og hefur því sinnt starfinu í rúmlega 14 ár.
„Á þessum tíma hefur félagið stækkað og eflt umsvif sín til mikilla muna og á Haraldur gríðarlega mikinn þátt í þessum mikla vexti félagsins,“ segir á vef Víkings.
„Í gegnum stjórnartíð Haraldar hefur félagið gengið í gegnum krefjandi uppbyggingartímabil en jafnframt tímabil mikillar velgengni. Í öllum aðstæðum og verkefnum hefur Haraldur sýnt mikinn stöðugleika og festu í stýringu sinni og um leið væntumþykju gagnvart félaginu á öllum sviðum. Í gegnum árin hefur Haraldur ávallt verið í afar góðu sambandi við félagsmenn okkar af öllum kynslóðum – átt sterk tengsl við mikilvæga grasrót félagsins.“
Haraldur mun sinna starfinu þangað til félagið hefur fundið eftirmann hans.