Hugh Grant deildi loksins einstökum nöfnum tveggja yngstu dætra sinna í viðtali í þættinum Jimmy Kimmel Live í gær.
Umræðan hófst á sérstöku millinafni Grant, Mungo. „Ég verð að spyrja þig um millinafnið þitt því þetta er smáatriði og ég veit ekki hvernig það fór framhjá mér síðast. En Mungo er eitt af millinöfnunum þínum?“ spurði þáttastjórnandinn Jimmy Kimmel.
„Já,“ svaraði Grant og tók fram að hann heitir fullu nafni Hugh John Mungo Grant.
Grant sagði í gríni að hann „ætti mjög óvingjarnlega foreldra“ og hafi þar af leiðandi gefið börnum sínum enn verri nöfn.
Grant sem er orðinn 64 ára á þrjár dætur og tvo syni með tveimur konum. Dótturina Tabitha Xiao Xi, 13 ára, og soninn Felix Chang Hong, 11 ára, með Tinglan Hong, soninn John Mungo 11 ára og dætur átta og sex ára með núverandi eiginkonu sinni, sænska sjónvarpsframleiðandanum Anna Eberstein.
Eins og glöggir taka eftir átti Grant tvö börn á sama ári, en synir hans eru fæddir með þriggja mánaða millibili eftir að hann sleit sambandi sínu með Eberstein og tók aftur upp samband við Hong. Grant og Eberstein endurnýjuðu svo kynnin og giftu sig árið 2018.
Grant hefur jafnan haldið börnum sínum frá sviðsljósinu, þó hann hafi af og til rætt fjölskyldulífið við fjölmiðla, en hann og Eberstein hafa ekki gefið upp nöfn dætra sinna fyrr en núna í þætti Kimmel.
„Ég á dóttur sem ég nefndi… ég var í smá stressi með konunni minni daginn sem við nefndum hana og við héldum að það gæti verið gott fyrir hana þegar hún væri eldri ef hún gæti sagt á börum að millinafnið hennar væri Hætta (e. Danger),“ útskýrði Grant. „Svo hún heitir Lulu Danger Grant,“ sagði hann um átta ára dótturina.
Seinna í þættinum sagði Grant að yngsta dóttir hans heitir Blue Grant.
„Hún var kölluð Blue vegna þess að ég var aftur með panikk yfir nöfnum með konunni minni svo við spurðum eldri bróður hennar þegar fæðingin var hafin,“ sagði Grant.
„Við sögðum: „Það er nýtt barn að koma, hvað eigum við að kalla hana?“ Og hann sagði „Kevin,“ því það var uppáhalds Minion hans,“ rifjaði hann upp og vísar til Despicable Me-myndanna.
Hjónin höfnuðu fyrstu tillögu sonarins, en urðu sátt við næstu tillögu hans.
„Svo sagði hann blár, því það var uppáhaldsliturinn hans.“
Grant sagði í viðtali við Los Angeles Times í nóvember 2020 að barneignir hefðu gert hann að mýkri manni.
„Þegar þú segir hvernig ég hef breyst sem leikari, þá grunar mig sterklega að það hafi virkilega hjálpað að eignast þessi börn. Vegna þess að skyndilega, í stað þess að vera hálfgerður miðaldra kylfingur, er ég maður með lífið fullt af ást. Ég elska konuna mína, ég elska börnin mín. Þeir elska mig. Og skyndilega – mjög óvenjulegt fyrir Englending – hef ég allar þessar tilfinningar, eiginlega of mikið af þeim og stundum er erfitt að stjórna þeim.“