Sigmar, sem situr á þingi fyrir Viðreisn, gagnrýndi þá Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, og Arnar Þór Jónsson, formann Lýðræðisflokksins, í pistli á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi eftir að þeir mættu í Pallborðið á Vísi ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni Viðreisnar.
„Sem gömlum fjölmiðlamanni finnst mér alltaf óskaplega dapurt þegar stjórnmálamenn gagnrýna með þjósti þegar fréttafólk spyr sjálfsagðra og eðlilegra spurninga. Í pallborðinu á Vísi spurði Elín Margrét Böðvarsdóttir formenn fjögurra flokka, Bjarna, Sigmund, Arnar og Þorgerði, um afstöðu þeirra til þungunarrofslaga sem alþingi samþykkti á sínum tíma,“ segir Sigmar í pistli sínum og heldur áfram:
„Íhaldsmennirnir þrír brugðust allir afar illa við og virtust ekki skilja að þetta mál, sem snýst um frelsi kvenna til að ráða yfir eigin líkama, er risavaxið kosningamál núna í Bandaríkjunum og hefur líka verið víða í Evrópu. Íslendingum, ekki síst íslenskum konum, kemur svo sannarlega við hvert viðhorf stjórnmálaflokkanna er til þessara mála þótt Sigmundi og Bjarna finnist greinilega viðkvæmt að minnt sé á að þeir greiddu atkvæði gegn lögunum á sínum tíma,“ sagði Sigmar sem hrósaði fjölmiðlakonunni Elínu Margréti Böðvarsdóttur.
„Elín Margrét lét þá ekki slá sig út af laginu og hélt sig fast við spurninguna. Fjölmiðlar eiga allan rétt í heiminum til þess að ákveða sjálfir spurningar sem þeir bera upp og stjórnmálamenn eiga ekki að tala það niður með hroka eins og gert var í þættinum. Jafnvel þótt efnið sé þeim viðkvæmt.“
Færsla Sigmars vakti töluverð viðbrögð og sagði Karen Kjartansdóttir, almannatengill og stjórnmálaskýrandi:
„Þegar leitað er svara hjá íhaldsmönnum kemur alltaf í ljós að þeir byggja meira og minna allan sinn málflutning á eigin tilfinningum og rjúka svo upp eins og dramadrottningar þegar þeir eru beðnir um að rökstyðja mál sitt. Það er nú öll skynsemishyggjan.“