Annmarie var ein heima hjá sér í Garbutt í Queensland þann 11. október þegar nágranni hennar sparkaði í útidyrahurðina á heimili hennar.
Hundurinn hennar, Buddy, sem var af tegundinni pit bull, brást illa við og beit Annmarie í vinstri handlegginn.
Þegar hún öskraði sleppti hann takinu en örfáum andartökum síðar gerðist eitthvað fyrir utan húsið sem gerði honum aftur bylt við. Brást hann við með því að læsa tönnunum í hægri handlegg Annmarie og fyrr en varði var hann búinn að draga hana með sér með þeim afleiðingum að handleggurinn rifnaði af.
Hundur reif handlegginn af eiganda sínum – Lögreglustjórinn aldrei séð annað eins
Annmarie tókst að skríða út úr húsinu og náði hún að hafa samband við neyðarlínuna, illa slösuð. Þegar lögregla kom á vettvang var Buddy lokaður inni í húsinu og brugðu lögreglumenn á það ráð að skjóta hann með þeim afleiðingum að hann drapst.
„Þeir (lögreglumennirnir) fundu handlegginn en hann var of illa farinn til að hægt væri að koma honum aftur á,“ segir Annmarie við Townsville Bulletin. Hún segir að hún hafi misst svo mikið blóð að henni var vart hugað líf. Læknar hafi unnið kraftaverk með því að bjarga lífi hennar.
Annmarie er komin heim til sín af sjúkrahúsi og er hún á batavegi. Í viðtalinu segist hún ekki kenna Buddy um hvernig fór og bendir á að ef til vill hafi hann ekki hlotið nægjanlega þjálfun.
„Hann varði umhverfi sitt og það kostaði hann lífið. Hann er dýr og þau eiga það til að missa stjórn á sér. Það var ekkert sem gaf til kynna þennan dag að eitthvað þessu líkt myndi gerast. Hann sat bara þarna, rólegur og glaður, en svo bara búmm!“
Annmarie segist hafa keypt hundinn af óábyrgum „bakgarðsræktanda“ (e. backyard breeder) sem ekki hugsaði nægjanlega vel um hundinn. „Ég held að vandamál hans hafi byrjað þar,“ segir hún.