Um helgina stóð DV fyrir skoðanakönnun á fylgi stjórnmálaflokkanna nú í aðdraganda alþingiskosninga sem fram fara 30. nóvember næstkomandi. Hafa ber í huga að ekki var tekið úrtak og haft samband við þann hóp eins og oft er gert í skoðanakönnunum heldur aðeins hægt að taka þátt á vef DV. Niðurstöðurnar eru eilítið öðruvísi en sjá hefur mátt í skoðanakönnunum að undanförnu. Verði niðurstöður kosninganna eitthvað í líkingu við niðurstöður könnunar DV er ljóst að þá stefnir í mikla hægri sveiflu í íslenskum stjórnmálum. Alls voru 12.555 atkvæði greidd.
Mest fylgi fékk Miðflokkurinn, 26,36 prósent. Þar á eftir kom Sjálfstæðisflokkurinn með 16,22 prósent og Viðreisn rétt á eftir með 16,10 prósent. Lesendur DV virðast minna hrifnir en Samfylkingunni en þátttakendur í öðrum könnunum en flokkurinn fékk 12,33 prósent atkvæða í könnun DV. Þar á eftir kom Flokkur fólksins með 8,58 prósent og síðan Framsóknarflokkurinn með 5,66 prósent. Aðrir flokkar fengu undir 5 prósent fylgi sem myndi ekki duga til að fá jöfunarsæti og þar með er afar ólíklegt að viðkomandi flokkar myndu ná nokkrum manni inn á þing.
Yrði þetta niðurstaðan myndu því Vinstri grænir og Píratar detta út af þingi en aðrar kannanir hafa einnig bent til þess. Sósíalistaflokkur Íslands myndi ekki ná inn á þing í öðrum kosningunum í röð og Lýðræðisflokkur Arnars Þórs Jónssonar myndi ekki ná heldur inn á þig frekar en Græningjar.
Verði niðurstaða kosninganna þessi myndu því Miðflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn, Samfylkingin, Flokkur fólksins og Framsóknarflokkurinn ná sæti á Alþingi og yrði fylgi flokkanna eitthvað í líkingu við þessa könnun DV væri varla aðrir valkostir í boði til ríkisstjórnarmyndunar en hægri stjórn.
Niðurstöður könnunarinnar í myndrænu formi má sjá hér fyrir neðan.