Pep Guardiola segist hafa lært fullt af hlutum um helgina er hans menn mættu Southampton í ensku úrvalsdeildinni.
Guardiola er að sjálfsögðu stjóri Manchester City sem vann 1-0 sigur á Southampton á heimavelli sínum, Etihad.
Southampton er undir stjórn Russell Martin og hefur byrjað tímabilið erfiðlega – liðið er á botninum með eitt stig eftir níu leiki.
Þrátt fyrir það er Guardiola hrifinn af stefnu Southampton og hrósaði liðinu fyrir flotta frammistöðu í viðureigninni.
,,Í þessum leik snerist þetta ekki um hvernig Southampton verst aftarlega á vellinum heldur hversu góðan fótbolta þeir spila og hvernig þeir hreyfa sig,“ sagði Guardiola.
,,Ég gat lært af þessum leik sem þjálfari. Ég mun læra mikið af Russell því þeir gerðu mjög vel í leiknum. Við vorum auðmjúkir og samþykkjum það að þeir spiluðu mjög vel.“