Liselotte Odgaard, hjá Hudson stofnuninni, sagði í samtali við TV að nú fari spennan vaxandi varðandi viðbrögð Suður-Kóreu. Það geti farið svo að Suður-Kórea auki stuðning sinn við Úkraínu en Suður-Kórea er stórt vopnaframleiðsluland og á topp tíu listanum yfir þau ríki sem verja mestu til varnarmála.
Hún sagðist ekki telja að suðurkóreskir hermenn verði sendir til Úkraínu til að berjast við hlið Úkraínumanna og skipti þar engu að Suður-Kórea styðji baráttu Úkraínumanna einarðlega.
Hvað varðar áhrif norðurkóreskra hermanna á vígvellinum, þá sagðist hún telja að þau verði ekki mikil. „Miðað við það sem við vitum um norðurkóreska herinn, þá er erfitt að sjá að þetta muni verða afgerandi því hermennina skorti þjálfun og bardagareynslu. Ég sé ekki annað en að þeir verði bara fallbyssufóður,“ sagði hún.
Hún sagði að koma norðurkóresku hermannanna geti í raun orðið sjálfsmark fyrir Rússa. Ef Suður-Kórea láti Úkraínu vopn í té, sem gera að verkum að Úkraínumenn geti gert harðar árásir á Rússa, þá geti koma norðurkóresku hermannanna komið í bakið á Rússum.