fbpx
Fimmtudagur 31.október 2024
Fréttir

Hafdís varð fyrir manndrápstilraun á Vopnafirði – „Þetta er maður sem á að vera í fangelsi, hann á ekki að ganga laus“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 29. október 2024 19:00

Hafdís Bára Óskarsdóttir. Skjáskot út Landanum á RÚV.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hafdís Bára Óskarsdóttir iðjuþjálfi er konan sem varð fyrir hrottalegum árásum og manndrápstilraun af hálfu barnsföður og fyrrverandi sambýlismanns síns, í nágrenni Vopnafjarðar, fyrr í mánuðinum. Málið vakti gífurlega athygli er greint var frá því í fjölmiðlum, ekki síst vegna þess að svo leit út fyrir að árásarmaðurinn yrði hvorki úrskurðaður í gæsluvarðhald né nálgunarbann og Hafdís og synir hennar tveir því varnarlaus gagnvart ofbeldi mannsins.

Í kjölfar frétta DV um málið skipti lögregla þó um skoðun (orsakasamhengi þó ósannað) og fór fram á gæsluvarðhald, og sýslumaður úrskurðaði manninn í nálgunarbann gagnvart Hafdísi.

Sjá einnig: Óhugnanlegt ofbeldismál skekur Vopnafjörð – „Hann segir að rifflinum sé miðað að húsinu hennar“

Gæsluvarðhaldið gildir til 4. nóvember. Árásarmaðurinn var hins vegar lagður inn á geðdeild þann 21. október síðastliðinn og jafnframt kærði lögmaður hans gæsluvarðhaldsúrskurðinn til Landsréttar. Landsréttur úrskurðaði að maðurinn skyldi vera vistaður á geðdeild til 29. október. Sá frestur rann út í dag en lögregla krafðist áframhaldandi gæsluvarðhalds. Úrskurður um það féll kl. 14 í dag og er manninum gert að dveljast á viðeigandi stofnun til 26. nóvember. Liggur ekki fyrir hvort þar sé um að ræða geðdeild, fangelsi eða réttargeðdeild.

Hafdís, sem hefur ekki getað um frjálst höfuð strokið árum saman vegna ógnana og ofbeldi mannsins, getur nú andað hægar og náð áttum næstu vikurnar, en hún hefur notið stuðnings vina og vandamanna við að jafna sig eftir árásir mannsins fyrr í mánuðinum. Sunnudaginn 13. október reyndi maðurinn að nauðga henni á heimili hennar og miðvikudagskvöldið 16. október réðst hann inni  í skemmu hjá heimili hennar og reyndi að reka Hafdísi á hol með járnkarli, tók hana síðan kverkataki og reyndi að svipta hana lífi með þeim hætti. Hún var í kjölfarið flutt á sjúkrahús á Akureyri.

Sjá einnig: Ofbeldismálið á Vopnafirði:Konan tjáir sig og fyrrverandi vinur mannsins lýsir skelfilegri árás – „Ég á kúbein“

Nokkrir dagar eru síðan Hafdís útskrifaðist af sjúkrahúsinu en það var fyrst í gærkvöld sem hún treysti sér til að koma aftur á heimili sitt. Henni ofbýður hvað mikið þurfti að ganga á til að koma manninum bak við lás og slá en hún hefur þolað ofbeldi af hans hálfu í mörg ár og aðrir íbúar á Vopnafirði hafa orðið fyrir árásum hans, sem og skefjalausum hótunum í rafrænum skilaboðum.

Börn ekki vernduð

„Mér finnst algjörlega galið hvernig þetta er orðið með ofbeldi á Íslandi og gerendameðvirknin er gríðarleg hér landi, hjá yfirvöldum, stjórnvöldum. Það er bara yppt öxlum og ekki farið eftir lögum. Við erum með barnasáttmála sem á að vernda börnin okkar, en það er ekki farið eftir honum,“ segir Hafdís í viðtali við DV.

Hún er ómyrk í máli um árásarmanninn og viðbrögð yfirvalda við framferði hans í gegnum tíðina:

„Ísland þarf að fara að gera sér grein fyrir einstaklingum sem eru siðblindir. Einstaklingum sem eru það veikir að þeir eru bara í leikriti. Honum tókst að fá sig lagðan inn á geðdeild með því að hóta sjálfsvígi. En þetta er maður sem hefur hótað sjálfvígi lengi en sem mun aldrei þora að taka eigið líf. Þetta er maður sem á ekki að komast upp með að ganga laus í íslensku samfélagi. Staðan er orðin þannig í dag. Við þessar konur sem hann hefur verið í langtímasamböndum með, við höfum allar elskað hann heitt og innilega og höfum reynt að gera það sem við gátum til að aðstoða hann.“

Hafdís segir að fólk hafi sent henni alls konar stuðning sem henni þykir vænt um. Hún segist eiga ákaflega sterkt bakland og fólki í baklandi hennar er nóg boðið vegna ofbeldisins sem hún hefur þurft að þola af hendi mannsins. Baklandið segir hingað og ekki lengra.

„Þetta er maður sem á að vera í fangelsi, þetta er maður sem á ekki að ganga laus,“ segir Hafdís, sem er staðráðin í að byggja líf sitt upp að nýju og hlúa að börnum sínum svo þau komist í gegnum þessar hremmingar.

Er að snúa aftur úr dimmum dal

Svo skemmtilega vildi til að í hinum vinsæla sjónvarpsþætti, Landanum á RÚV, var birt viðtal við Hafdísi síðastliðinn sunnudag, sem var tekið upp fyrir nokkru síðan, en þar er greint frá stórmerkilegu starfi hennar þar sem hún beitir hestum við endurhæfingu fólks. Þáttinn má sjá hér. Hafdís segir að gaman hafi verið að þessi þáttur skuli hafa verið sýndur núna, þegar hún sjálf er að snúa til baka úr dimmum dal auk þess sem dagur iðjuþjálfunar var á sunnudaginn þegar þátturinn var sýndur.

„Gaman að þessi þáttur í Landanum skyldi koma núna á degi iðjuþjálfunar þar sem ég er iðjuþjálfi og líka eftir þetta allt saman. En stuðningurinn sem maður hefur fengið er gríðarlega mikill og það  hefur hjálpað mikið. En það er óöryggi að vera hér heima ef hann skyldi sleppa á næstunni,“ segir Hafdís sem þó getur verið örugg fram til 26. nóvember.

Gagnrýnin á yfirvöld

Fyrir nokkrum dögum fór hún yfir málið í Facebook-færslu þar sem hún meðal annars gagnrýndi að ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hefðu verið brotin varðandi aðkomu yfirvalda að hennar málum. Börn eigi til dæmis að njóta verndar fyrir ofbeldi. Hún lýsir því einnig hvernig veröldin fór í hæga hreyfingu eða slow motion í kjölfar árásanna. Hún segir ennfremur:

„Í þessu ferli öllu þá er ég sárust yfir þeim sem töldu stöðuna ekki alvarlega, sem hlustuðu ekki, sem þorðu ekki að framkvæma þó svo að ég bað ítrekað um aðstoð. Að aðstæður væru orðnar þannig að þær voru engum bjóðandi og hvað þá drengjunum mínum. Þar brást löggæslan, þar brugðust stjórnvöld á svo sáran hátt. Við erum með lög og reglugerðir yfir þessa hluti en það er eins og það þurfi ekki að fylgja þeim.“

Hún segist hafa byrjað að hafa virkilegar áhyggjur af ástandinu í sumar eftir að hún horfði á myndband lögreglunnar um nauðungarstjórnum. Þá fyrst áttaði hún sig á því hvernig staðan var orðin og gerði sér grein fyrir því að hún væri stödd í ástandi sem leiðir til lífshættu.

Pistilinn má lesa með því að smella á myndina hér að neðan.

Hjá sumum símanotendum birtist tengillinn brotinn og fyrir þá er textinn úr færslunni hér afritaður:

Vika í dag Vika síðan ég upplifði hvernig heimurinn fór allur í hæga hreyfingu/“slow motion“. Hvernig var að upplifa að hafa lítið annað eftir en heyrnina til að reyna að fylgjast með aðstæðum. Að upplifa það að vera sætta sig við örlög sín…

Það er skrítin tilfinning þegar maður er komin þangað að vera ekki hrædd lengur.. að „sjá og finna“ að það tækju einhverjir góðir á móti manni.

Inngöngu fékk ég ekki að sinni og er óendanlega þakklát fyrir lífið… það voru svo sannarlega ekki bara jarðneskar verur að verki á þessum mínútum

Mig langar samt að beina orðum mínum að kerfunum okkar. Sérstaklega tengt geðheilbrigðismálum og löggæslu þá get ég lítið annað en orða bundist. Á einu ári þá hafa aðstæður mínar og drengjanna minna orðið verri og verri með hverjum mánuðinum vegna mjög svo lasinn einstakling. Eitthvað sem ég hef gert mér grein fyrir í langan tíma. Ég sem iðjuþjálfi gerði mitt besta til þess að beina viðkomandi í réttar áttir en því miður þá getum við aldrei breytt öðrum eða látið aðra framkvæma eitthvað sem það vill ekki gera eða telja ekki þurfa að gera.

Í þessu ferli öllu þá er ég sárust yfir þeim sem töldu stöðuna ekki alvarlega, sem hlustuðu ekki, sem þorðu ekki að framkvæma þó svo að ég bað ítrekað um aðstoð. Að aðstæður væru orðnar þannig að þær voru engum bjóðandi og hvað þá drengjunum mínum. Þar brást löggæslan, þar brugðust stjórnvöld á svo sáran hátt. Við erum með lög og reglugerðir yfir þessa hluti en það er eins og það þurfi ekki að fylgja þeim.

Ef við förum bara inn á vef umboðsmanns barna og rifjum upp barnasáttmálann þá kemur skýrt fram í nokkrum greinum þar:

2) Öll börn eru jöfn

Öll börn eiga að njóta allra réttinda Barnasáttmálans án tillits til hver þau eru, hvar þau búa, hvaða tungumál þau tala, á hvað þau trúa, hvernig þau hugsa og líta út, af hvaða kyni þau eru, hvort þau eru fötluð, rík eða fátæk og án tillits til þess hvað fjölskylda þeirra gerir eða trúir á. Aldrei skal koma fram við barn af óréttlæti.

3) Það sem er barninu fyrir bestu

Þegar fullorðnir taka ákvarðanir eiga þeir að hugsa um hvaða áhrif þær hafa á börn og eiga að gera það sem er best fyrir þau. Stjórnvöld eiga að tryggja að foreldrar verndi börn sín og gæti þeirra eða aðrir í þeirra stað þegar þörf er á. Stjórnvöld eiga að sjá til þess að fólk sem ábyrgt er fyrir börnum hafi hagsmuni þeirra alltaf að leiðarljósi og staðir sem ætlaðir eru börnum uppfylli einnig þær skyldur.

19) Vernd gegn ofbeldi

Stjórnvöld eiga að vernda börn gegn ofbeldi, misbeitingu og vanrækslu af hendi allra þeirra sem annast þau.

27) Næring, föt og öruggt heimili

Börn eiga rétt á því að fá næringu, fatnað og öruggt heimili svo þau geti þroskast á sem bestan hátt. Stjórnvöld eiga að aðstoða fjölskyldur sem hafa ekki kost á því að veita börnum framangreint.

Bara þessar greinar taka til þátt drengjanna minna þar sem ég sem foreldri ber ábyrgð um að vernda þá gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og öðrum ógnunum. Ég gat það ekki ein! Ég þurfti aðstoð frá yfirvöldum sem ég ÖSKRAÐI eftir… mörgum sinnum. Ekki einu sinni, ekki tvisvar sinnum.. MÖRGUM SINNUM.

Í sumar var ég farin að hafa virkilega áhyggjur af ástandinu. Sérstaklega eftir að ég horfði á myndband lögreglunnar um nauðungastjórnun ( https://www.youtube.com/watch?v=cDHITb_jois ). Þá fyrst áttaði ég mig virkilega á því hvernig staðan var orðin. Til að upplýsa ykkur fljótt um hlutina þá snýst myndbandið um 8 stiga tímalínu í manndrápsmálum í nánum samböndum. Ég var farin að búa mér til gerfi til þess að geta sýnt fram á hluti, sjálf búin að tilkynna, fara áður í skýrslatöku svo fátt sé nefnt. Eftir þetta myndband þá óska ég í fyrsta sinn eftir nálgunarbanni. Það var fljótt sagt við mig eins og hefur verið gert allt ferlið að þeir gætu ekkert gert. Málið væri ekki nógu alvarlegt. Þá segi ég og spyr lögreglu í síma sár og reið: „eftir hverju eru þið að bíða, að málið á Blönduósi endurtaki sig?“ Þá var fyrst nefnt við mig svokallaða Selfossleið sem á að vera svipað og nálgunarbann nema hvað að viðkomandi aðili getur neitað þvi að fara eftir þessu.. sem gerðist í mínu tilviki.. Hver er raunverulegur tilgangur þessara leiðar? Þessi Selfossleið fór aldrei í gang í sumar. Það kom upp í þessu samtali einnig að setja á símann minn krækju sem átti að virka þannig að þegar ég myndi hringja þá ætti það að fara beint í fjarskiptamiðstöð sem myndi kalla strax til lögreglu. Þessi krækja brást mér algjörlega þegar ég óskaði eftir aðstöð á sunnudeginum fyrir árásina. Þá varð ég sjálf nakin að neðan eftir að búið var að rífa mig úr að koma viðkomandi aðila út, með strákana mína nálægt og svo spurð þegar það náðist hvort ég vildi fá aðstoð lögreglu… ég játa í geðshræringum mínum öskraði ég sáran að mér var lofað aðstoð og að ég hafi verið búin að vara endalaust við viðkomandi. Vinur minn kom mörgum mínútum á undan lögreglu. Viðkomandi aðlili var ekki færður til lögreglu þetta kvöld.

Það er svo margt rangt og skrýtið i þessu öllu saman vegna þess að það var bara eins og enginn þorði að taka á málunum hjá lögreglu og alltaf var reglulega sagt að ekkert væri hægt að gera eða að málið væri ekki nógu alvarlegt.

Fyrir mér var það ekki fyrr en félagsmálastjóri Múlaþings kom inn í málið þegar ég fann virkilega fyrir stuðning enda var sagt við mig: „Ég trúi þér og ég sé“ Að heyra þessi orð.. ég bara grét.. Óskaði félagsmálastjóri eftir nálgunarbanni á vegum barnaverndar en daginn eftir fékk ég þær fréttir að því hafi verið hafnað. Enda var búið að gera mér það ljóst strax þegar ég fór í skýrslatöku að félagsmálastjórinn fengið það aldrei. Ég fékk sting í hjartað að heyra þetta og upplifði lögreglu bara gera lítið úr aðstæðum mínum… innantómar hótanir.. hvenær verða hótanir að veruleika í svona málum? Það er bara tímaspurnsmál.. ekki hvort heldur hvenær….

Svo eru það lögin okkar.. Hvar í lögum um nálgunarbann er tekið fram að aðstæður þurfa að vera nánast morð til þess að hægt sé að beita þeim.. í 4. gr laganna kemur bara skýrt fram:

„Heimilt er að beita nálgunarbanni ef:

  1. rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola, eða
  2. hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola skv. a-lið.“

Enn fremur kemur fram um umsáturseinelti:

“ Á eftir 232. gr. laganna kemur ný grein, 232. gr. a, svohljóðandi:

Hver sem endurtekið hótar, eltir, fylgist með, setur sig í samband við eða með öðrum sambærilegum hætti situr um annan mann og háttsemin er til þess fallin að valda hræðslu eða kvíða skal sæta sektum eða fangelsi allt að 4 árum.“

Lögin eru til… en hvað? Hvað er að?

Ég gæti haldið áfram og á örugglega eftir að gera það við gott tækifæri þar sem að þetta er engan veginn í lagi. Það á enginn að upplifa sjálfan sig í svona aðstæðum og allir lyfta bara öxlum þegar óskað er eftir aðstoð. Af hverju eru ekki til ferlar til þess að aðstoða fólk í svona aðstæðum.. eða eru þeir til? Af hverju á maður sjálfur að þurfa að standa einn í að berjast fyrir eðlilegu lífi og að halda lífi vegna veikra einstaklinga?? Hvar er geðheilbrigðiskerfið okkar gagnvart því ?

Í lokin vil ég þakka öllum sem hafa sýnt manni óendanlegan mikinn stuðning í gegn um allt Öllu heilbrigðisfólkinu sem kom að, veitti mér aðstoð, stuðning, hlýju, öryggi. Sjúkraflutningafólk, læknar, hjúkrunarfræðingar og aðrir sérfræðingar. Sjúkrahúsið á Akureyri fyrir einstaka umönnun og sérstakar hlýjur til allra á barnadeildinni sem hugsuðu svo vel um mig. Barnavernd fyrir að grípa okkur, áfallateymið á Landspítalanum og dásamlegi sálfræðingurinn minn Fjölskylda og vinir fyrir allan þann stuðning sem það hafið veitt mér og sérstakar þakkir fyrir tvö af mínum bestu Án ykkar væri ég ekki hér í dag.

Myndin var tekin heima rúmum klukkutíma áður en atburðurinn var þar sem verið var að reyna að fanga eftirlegu kindur. Elsku Rosti minn í kvöldsólar kyrrðinni áður en hann endaði kvöldið með að liggja ofan á mér til að vernda mig og áttu sjúkraflutningafólk í vandræðum með að koma mér á börurnar þar sem hann ætlaði sér með Dýrin okkar eru einstök.

Ég ætla að vitna í fyrirtækið mitt Vonarljós-Iðjuþjálfun. -þú átt val- Við eigum alltaf val og ég ætla að halda áfram að velja ljósið og fallega lífið

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Reyna að fá norðurkóreska hermenn til að gerast liðhlaupar – Lofa þeim heitum mat og læknisaðstoð

Reyna að fá norðurkóreska hermenn til að gerast liðhlaupar – Lofa þeim heitum mat og læknisaðstoð
Fréttir
Í gær

Stór áfangi – Nú mun Pútín greiða fyrir vopnakaup Úkraínu

Stór áfangi – Nú mun Pútín greiða fyrir vopnakaup Úkraínu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Eiríkur svarar Snorra og segir rangt að tala um „útlendingavandamál“ – „Við berum sjálf ábyrgð á stöðunni“

Eiríkur svarar Snorra og segir rangt að tala um „útlendingavandamál“ – „Við berum sjálf ábyrgð á stöðunni“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir að Dagur sé greinilega allt annað en sáttur – „Þar er ósögð saga og henni er ekki lokið“

Segir að Dagur sé greinilega allt annað en sáttur – „Þar er ósögð saga og henni er ekki lokið“