fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fókus

Ættu Íslendingar að fjölga frídögum – Fullveldisdagurinn, Þorláksmessa eða allir föstudagar?

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 3. nóvember 2024 14:00

Það væri nú gott að fá að slappa oftar af. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á Íslandi eru 16 svokallaðir rauðir dagar, það er lögbundnir frídagar. Þetta er næst mesti fjöldi í Evrópu en sjálfsagt myndum við flest vilja hafa þá enn fleiri.

Umræða hefur skapast á samfélagsmiðlinum Reddit um hvaða dögum væri hægt að bæta við sem frídögum hér á Íslandi. Að bæta við frídegi gæti verið gott baráttumál fyrir stjórnmálaflokkana sem nú keppast um athygli og hylli kjósenda á þeim skamma tíma sem er til stefnu fyrir alþingiskosningar.

Í dag eru eftirfarandi 16 dagar frídagar:

Nýársdagur (1. janúar)

Skírdagur (síðasti fimmtudagur fyrir páska)

Föstudagurinn langi (síðasti föstudagur fyrir páska)

Páskadagur (fyrsti sunnudagur eftir að tungl verður fullt næst eftir vorjafndægur)

Annar í páskum (dagurinn eftir páskadag)

Uppstigningardagur (fimmtudagur 40 dögum eftir páska)

Sumardagurinn fyrsti (fyrsti fimmtudagur eftir 18. apríl)

Alþjóðlegur frídagur verkafólks (1. maí)

Hvítasunnudagur (tíundi dagur eftir uppstigningardag)

Annar í hvítasunnu (dagurinn eftir hvítasunnudag)

Þjóðhátíðardagurinn (17. júní)

Frídagur verslunarmanna (fyrsti mánudagur í ágúst)

Aðfangadagur jóla (eftir klukkan 12:00 24. desember)

Jóladagur (25. desember)

Annar í jólum (26. desember)

Gamlársdagur (eftir klukkan 12:00 31. desember)

Vinna á þessum dögum greiðist með yfirvinnu eða stórhátíðarkaupi. Hafa ber í huga að suma þeirra ber alltaf upp á helgi og tveir þeirra, aðfangadagur og gamlársdagur, eru ekki heilir frídagar.

Engu að síður er Íslandi með næst flesta frídaga í Evrópu á eftir Liktenstein sem hefur 20 frídaga. Í Danmörku eru þeir 14, 13 í Póllandi og Finnlandi, 12 í Svíþjóð, Noregi, Spáni og Ítalíu, 11 í Frakklandi, 10 í Þýskalandi en aðeins 8 í Bretlandi.

Fjölmargar Asíu og Ameríkuþjóðir eru hins vegar með mun fleiri frídaga. Flestir eru þeir í Indlandi og Nepal, 35 talsins. Fæstir eru frídagarnir í Bandaríkjunum, aðeins 6.

Gamlir eða nýir frídagar

Ýmsir dagar eru nefndir til sögunnar sem hugsanlegir frídagar af netverjum á samfélagsmiðlinum Reddit. Annað hvort alveg nýir eða þá dagar sem eitt sinn voru frídagar en glötuðu heilagleik sínum.

Fullveldisdagurinn

Augljósasta dæmið sem nefnt er er fullveldisdagurinn, 1. desember. Telja sumir að það skjóti skökku við að 17. júní sé frídagur en ekki 1. desember, sem hafi í raun meiri þýðingu í sögu þjóðarinnar. Frumvörp hafa verið lögð fram á Alþingi um að fullveldisdagurinn verði gerður að frídegi en ekki náð fram að ganga. Áður fyrr var algengt að frí væri gefið í skólum á þessum degi.

Þorláksmessa

Lenging jólanna er einnig nefnd. Það bæði að aðfangadagur og gamlársdagur verði heilir frídagar. En einnig er nefnt að Þorláksmessa, þann 23. desember, verði frídagur. Mikið er oft um að vera hjá fólki á Þorláksmessu, bæði við að undirbúa skötuveislu og kaupa inn síðustu jólagjafirnar. Frí væri því kærkomið á þessum degi.

Kristján VII afhelgaði fjóra daga

Kristján VII er einn mesti óþurftarmaður í sögunni.

Einnig er hugmynd um að lengja páskana, sem eru þó fyrir lengsta hátíðin á almanaksárinu. Það er að gera þriðja í páskum aftur að frídegi. Sjálfsagt muna ekki margir eftir þriðja í páskum sem frídegi en það var hann fram til ársins 1770 þegar hann var afhelgaður af Kristjáni VII Danakonungi. Konungurinn afhelgaði fleiri íslenska frídaga, það er þriðja í jólum, þrettándann og þriðja í hvítasunnu.

Annar í…

Viðbætur aftan við núverandi frídaga eru nefndar. Svo sem 18. júní, daginn eftir þjóðhátíðardaginn. En líkt og dagar sem eru fastir á ákveðinni dagsetningu, lendir hann stundum á helgi.

Föstudagur

Róttækasta breytingin yrði hins vegar lenging helgarinnar. Það er að gera föstudaga að frídögum og þar með stytta vinnuvikuna úr 5 í 4 daga. Þegar hefur verið samið um styttingu vinnuvikunnar á mörgum vinnustöðum og taka margir hana einmitt út á föstudögum.

Hlaupársdagur

Hófsamasta breytingin sem nefnd er er hins vegar að gera hlaupársdag að frídegi. Hlaupársdagur er auka dagur til að jafna út almanaksárið og ber upp 29. febrúar fjórða hvert ár. Gremst mörgum að fá þennan „auka vinnudag“ inn í mánuðinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni