Elly Pimentel er 31 árs og tveggja barna móðir. Það var fyrst í ágúst sem hún tók eftir dreng á unglingsaldri sem var sofandi ofan á steyptum hleðslusteinum í vegarkantinum. Fyrst taldi hún að um eðlilega unglingahegðun væri að ræða. Kannski var drengurinn nýkominn af æfingu og var bara að kasta mæðinni, enda unglingar mikið fyrir að leggja sig. Það fóru þó að renna á hana tvær grímur næstu daga. Áfram fann hún drenginn sofandi á þessum óheppilega steypubedda. Vikurnar liðu og í september sá hún að drengurinn var illa til hafður og var þá augljóst að ekki var allt með felldu. Hún ræddi við People um málið.
Dag einn sá hún hann á lóðinni hjá nágranna sínum. Þá ákvað hún að gera eitthvað. Hún tók upp símann og byrjaði að taka upp. Hún reyndi að setja sig í hans spor. Hún hugsaði að það væri farið að kólna úti og að steinsteypan væri nú frekar hörð. Hún fór því inn og náði í svefnpoka, kodda og vatnsþéttan bakpoka. Hún fyllti svo bakpokann af dósamat, skeiðum, munnþurrkum og öðrum nauðsynjum. Síðan skrifaði hún miða til drengsins og setti búnaðinn í vatnsþéttar umbúðir.
„Ég skrifaði skilaboðin bæði á ensku og spænsku. Ég vildi koma því á framfæri að ég væri ekki að leggja fyrir hann gildru. Ég hef ekki mikla reynslu af heimilisleysi, en ég veit að því fylgir ákveðin varkárni að lifa lífinu frá einni stund til annarrar. Ég reyndi að ganga þessa hárfínu línu á milli þess að bjóða honum búnaðinn, án þess að krefjast nokkurs frá honum í staðinn. Ég geri þetta því ég sé þig og ef þetta gagnast þér, þá frábært. Ef þú vilt halda áfram að sofa á hleðslusteininum þá er það í góðu lagi. En ef þú vilt bæta aðstæður þínar þá hefurðu nú þessa hluti án nokkurra skilyrða.“
@ellayyyyee idk if this was the right thing 🤷🏻♀️ ive never had a vagrant youth live on my lawn before. #carepackage #essentials #grwmhair #ootds ♬ original sound – ellayyyyee
Hún fann svo öruggan stað til að skilja búnaðinn eftir svo honum yrði ekki stolið, og svo hann kæmist í réttar hendur. Nokkrum dögum síðar fann hún miða á útidyrahurðinni sinni. Þar þakkaði drengurinn fyrir búnaðinn. Þau héldu áfram að skiptast á miðum þar til í október en þá töluðu þau augliti til auglits. Þar sagði drengurinn Elly sögu sína, sem hún vill ekki deila enda hans einkamál. Hún sagði honum að tími væri til kominn að ákveða næstu skref og fór að afla sér upplýsinga um hvað væri hægt að gera fyrir drenginn.
Hún deildi svo öllu ferlinu á TikTok. Þar hafa viðbrögðin verið mjög jákvæð. „Margir segja að ég sé að gera góðverk eða hrósa mér sem manneskju, en ég er bókstaflega bara búin að gera það minnsta sem ég get gert. Margir hrósa mér fyrir þetta og flestar athugasemdirnar eru í þá átt.“
Hún tekur fram að margir hafi furðað sig á því að hún leyfi drengnum ekki að búa hjá sér eða hvers vegna hún hafi ekki gefið honum tjald, út frá því hafi umræða sprottið upp um flóknar ástæður fyrir heimilisleysi og hvernig fólk í þeim aðstæðum er gjarnan að glíma við veikindi, andleg eða fíkn, og þar með ekki endilega tilbúið að þiggja hvaða hjálp sem er. Hún segir áhugavert að fylgjast með þeirri umræðu. Eins hafi fólk deilt eigin reynslu af heimilisleysi. Elly segist sjálf hafa upplifað það að vera jaðarsett. Hún ólst upp í fósturkerfinu þar til hún var tekin í varanlegt fóstur í 2. bekk. Hún hefur eins notað tækifærið og frætt börnin sín um ólíkar aðstæður fólks.
Því miður fór það svo að eftir að Elly leyfði honum að byrja að sofa á pallinum hjá sér þá fór vafasamt fólk að banka upp á hjá henni. Hún sagði drengnum þá að tími væri kominn til að fara annað. Hún hafði bent honum á hin ýmsu úrræði sem honum stóðu til boða en segir í myndbandi á TikTok að líklega sé fíknisjúkdómur drengsins of alvarlegur til að hann sé tilbúinn að leggja þau til hliðar, en skilyrði hjá þeim athvörfum sem hefðu tekið við honum, er að hann sé ekki í virkri neyslu. Hún segir að það sé þyngra en tárum taki að hann sé ekki tilbúinn að þiggja hjálp, en vonandi muni sá dagur renna upp fyrr en síðar.
@ellayyyyee An action-packed end to the tale, with lots of lessons learned along the way. #unhoused #homeless #youthhomelessness #outreach ♬ original sound – ellayyyyee