Allt bendir til þess að Ruben Amorim stjóri Sporting Lisbon taki við hjá Manchester United. Erik ten Hag var rekinn úr starfi í gær en Amorim fór í viðræður við United strax í gær.
Amorim þénar 2,1 milljón punda á ári sem þjálfari Sporting eða um 350 milljónir króna.
Talksport segir að hjá United muni Amorim meira en þrefalda laun sín og líklega fá meira en 7 milljónir punda í árslaun.
Amorim hefur samþykkt þau laun sem United er tilbúið að greiða honum.
Amorim mun þó ekki setja pressu á Sporting um að losna en klásúla er í samningi hans sem United þarf að borga. Talið er að hún sé í kringum 8 milljónir punda.
Amorim er 39 ára gamall og var sterklega orðaður við Liverpool og fleiri lið í sumar.