fbpx
Fimmtudagur 31.október 2024
Fréttir

Eiríkur svarar Snorra og segir rangt að tala um „útlendingavandamál“ – „Við berum sjálf ábyrgð á stöðunni“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Þriðjudaginn 29. október 2024 10:08

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eiríkur Rögnvaldsson, uppgjafaprófessor í íslenskri málfræði, segir rangt að áfellast innflytjendur fyrir að hafa ekki tileinkað sér íslenskuna. Hér sé ekki um „útlendingavandamál“ að ræða líkt og frambjóðandi Miðflokksins haldi fram, heldur „Íslendingavandamál“. Þetta kemur fram í pistli sem Eiríkur skrifaði í gærkvöldi inn á Málspjallið á Facebook. Þar var uppgjafaprófessorinn að bregðast við skrifum Snorra Mássonar, fjölmiðlamanns sem er í framboði fyrir Miðflokkinn.

Þetta er útlendingavandamál

Grein eftir Snorra birtist í gær þar sem hann benti á að minna en 19% innflytjenda hafi náð góðum tökum á íslensku. Hann kallaði stöðuna „augljóst og alvarlegt útlendingavandamál“ sem hafi leitt til þess að enskan sé komin inn í þjónustustörf og inn í leikskólana.

„Góðu fólki mislíkar það af hugmyndafræðilegum ástæðum að kenna vandamál við hópa sem gætu talist jaðarsettir í einhverjum skilningi. Ef það hjálpar því fólki í gegnum þessa umræðu að firra útlendinga allri ábyrgð á að læra tungumálið í því landi sem þeir flytjast til, getum við gert það hér fyrir sakir umræðunnar.“

Snorri nefndi að það standi að minnsta kosti eitt Íslendingavandamál eftir. Að við höfum ekki tryggt að innflytjendur læri íslensku. Þar megi kenna Alþingi um að vissu leyti.

Nei, þetta er ekki útlendingavandamál

Eiríkur segir að vissulega sé rétt að aðeins 19% innflytjenda hafa náð góðum tökum á íslenskunni, og að hlutfallið sé mun hærra í löndum á borð við Portúgal og Ungverjaland. En það sé ekki nóg að henda fram þessum tölum án þess að íhuga hvað liggi að baki þessum mikla mun. „Stafar hann af því að innflytjendur á Íslandi séu tornæmari, latari, áhugalausari, metnaðarlausari eða neikvæðari í garð þjóðtungunnar en innflytjendur í öðrum Evrópulöndum?“

Eiríkur trúir ekki að svo sé. Ekkert bendi til að hér sé við innflytjendur að sakast.

„Þá stendur eftir að ástandið hlýtur að stafa af aðstæðum á Íslandi. Þar skiptir meginmáli að það liggur fyrir – eins og kemur fram í skýrslunni sem Snorri vísar til en hann nefnir ekki – að það fé sem Íslendingar verja til að kenna innflytjendum íslensku er ekki nema brot af því sem önnur Norðurlönd verja til að kenna sín mál. Innflytjendur hér eiga til dæmis ekki kost á ókeypis íslenskunámskeiðum við komu til landsins – þótt þeir geti oft fengið endurgreiðslu gegnum stéttarfélög sín þurfa þeir að yfirleitt að vera búnir að greiða stéttarfélagsgjöld í einhverja mánuði til þess.“

Þetta er Íslendingavandamál

Að kenna innflytjendum um stöðuna sé eins og „þegar maðurinn sem var stolið frá var kallaður „Jón þjófur“ upp frá því. Snorri slái naglann á höfuðið þegar hann kalli þetta Íslendingavandamál. En hann gæfi sér þó rangar forsendur fyrir því.

„Íslendingavandamálið felst ekki í því „að við höfum ekki tryggt að fólk sem hingað flyst læri tungumálið okkar“, heldur í því að við höfum ekki skapað aðstæður sem auðveldi fólki að læra íslensku – það skortir faglegar, félagslegar og fjárhagslegar forsendur. Við bjóðum ekki nógu mörg námskeið og ekki nógu víða og námskeiðin sem þó eru í boði eru sjaldnast ókeypis, við gerum fólki sjaldnast kleift að stunda íslenskunám á vinnutíma, við höfum ekki samið nóg af hentugu kennsluefni, við höfum ekki menntað nógu marga hæfa kennara, og við höfum ekki varið nándar nærri nógu miklu fé í að móta og framfylgja stefnu á þessu sviði.

Við þetta bætist að enskukunnátta er almenn á Íslandi þannig að það er auðvelt að búa hér og starfa árum og jafnvel áratugum saman án þess að læra málið. Það er samt ósanngjarnt og rangt að tala um „það grátlega litla hlutfall útlendinga sem sér ástæðu til að læra íslensku“ – rannsóknir sýna nefnilega að innflytjendur vilja flestir læra málið. En fyrir utan þá erfiðleika sem áður voru nefndir er ein ástæðan fyrir því að íslenskukunnátta þeirra er ekki almennari en raun ber vitni neikvætt viðhorf margra Íslendinga gagnvart „ófullkominni“ íslensku og sá siður margra að skipta yfir í ensku ef viðmælandinn talar ekki fullkomna íslensku, þannig að fólk sem er að læra málið fær enga æfingu í því að nota það, missir móðinn og hættir námi.“

Snorri hafi rétt fyrir sér þegar hann segi þróunina á fleygiferð og að hvatinn fyrir því að læra íslensku sé að minnka. Þetta skapi hættu á samfélagið skiptist í þá sem tala ensku og þá sem tala íslensku. Eiríkur tekur undir þetta og segist oft hafa vakið máls á þessu. Vissulega þurfi að bregðast við.

„En það gerum við ekki með því að tala um „útlendingavandamál“ heldur með því að átta okkur á því að við berum sjálf ábyrgð á stöðunni og það er okkar að leysa þetta mál – í sátt og samlyndi við innflytjendur.“

Fyrr í þessum mánuði, eftir að Snorri tilkynnti um framboð sitt og að hann vildi gera íslenskuna að kosningamáli, skrifaði Eiríkur að ekki væri að sjá að Miðflokkurinn hefði beitt sér fyrir því að veita aukið fjármagn til íslenskukennslu innflytjenda. Þvert á móti hafi stjórnarandstaðan lítið gert í þessum efnum, að frátalinni einni breytingartillögu við fjárlög þessa árs. Tillagan kom frá Pírötum sem lögðu til að ríkissjóður myndi verja 230 milljónum til að efla íslenskukennslu fyrir innflytjendur. Sú tillaga var felld og Miðflokksmenn studdu hana ekki heldur sátu hjá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Reyna að fá norðurkóreska hermenn til að gerast liðhlaupar – Lofa þeim heitum mat og læknisaðstoð

Reyna að fá norðurkóreska hermenn til að gerast liðhlaupar – Lofa þeim heitum mat og læknisaðstoð
Fréttir
Í gær

Stór áfangi – Nú mun Pútín greiða fyrir vopnakaup Úkraínu

Stór áfangi – Nú mun Pútín greiða fyrir vopnakaup Úkraínu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þriðji mánuðurinn í röð sem telst markvert kaldur

Þriðji mánuðurinn í röð sem telst markvert kaldur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir að Dagur sé greinilega allt annað en sáttur – „Þar er ósögð saga og henni er ekki lokið“

Segir að Dagur sé greinilega allt annað en sáttur – „Þar er ósögð saga og henni er ekki lokið“