Talsvert mikil umræða hefur átt sér stað um það hvort tala eigi um markamet í efstu deild karla nú þegar Benóný Breki Andrésson skoraði 21 mark fyrir KR á liðnu tímabili.
Markametið var 19 mörk en það hafði verið skorað í 18 og 22 leikja móti, mótið núna er 27 leikir.
Að auki hafa sumir bent á það að KR hafi spilað við fimm af lélegri liðum deildarinnar þar sem Benóný skoraði meira en helming marka sinna. Benóný skoraði 10 mörk í 22 leikja móti en bætti svo við ellefu mörkum í fimm leikjum í neðri hlutanum.
Víðir Sigurðsson blaðamaður Morgunblaðsins og höfundur á Íslenskri knattspyrnu telur hins vegar að Benóný eigi metið, það þurfi ekkert að ræða þetta.
„Umræða hefur verið í gangi um hvort eigi að viðurkenna þetta sem met. Fleiri leikir, öðruvísi keppnisfyrirkomulag og fleira er tínt til. Eiga þá ekki bara 12 mörkin hans Friðþjófs frá 1918 að standa sem markamet um aldur og ævi?,“ skrifar Víðir og á þar við markamet sem Friðþjófur Thorsteinsson setti árið 1918 þegar hann skoraði 12 mörk í 3 leikja móti með Fram.
„Benoný varð einfaldlega markahæstur. Hann hefur skorað fleiri mörk en nokkur annar. Þar með er markametið hans. Ekki flækja hlutina að óþörfu,“ skrifar Víðir í Morgunblaðið.