Hulda Fríða Berndsen er 73 ára eiginkona, móðir, amma og langamma. Hún er líka uppkomið barn alkóhólista og þekkir sjúkdóminn frá mörgum hliðum. Hún hélt að allir alkóhólistar væru eins og pabbi hennar en komst að raun um að svo er ekki. Hulda Fríða er gestur Tinnu Barkardóttur í hlaðvarpinu Sterk saman.
Mikael Torfason rithöfundur og blaðamaður er sonur Huldu Fríðu. Hann skrifaði um líf fjölskyldunnar í bókunum Bréf til mömmu, Syndafallinu og Týnd í paradís. Þar kemur fram að Hulda Fríða hafi alist upp við erfiðar aðstæður hjá foreldrum sínum og systkinum.
„Ég var fyrst yngst af fjórum og síðan elst af þremur,“ segir Hulda Fríða.
Faðir hennar var mjög veikur af alkóhólisma og yfirtók það heimilislífið, æskuna og hefur litað allt hennar líf. „Pabbi drakk inni í stofu og oft fengum við ekki að fara þangað inn í tvær vikur í senn. Hann var samt aldrei vondur eða ofbeldisfullur,“ segir Hulda Fríða.
Að hennar sögn var aldrei talað um hvað væri að föður hennar, hann var bara veikur en feluleikurinn alla tíð mikill.
„Ég var ung farin að biðja fyrir honum og var eina barnið sem fór með á trúarviðburði í söfnuði þar sem Guð átti að taka frá honum þessi veikindi, ég ætlaði sko ekki að missa af því, þegar pabbi myndi læknast.“
Hulda Fríða var 15 ára þegar hún missti pabba sinn. Hún kynntist fyrri eiginmanni sínum og barnsföður, Torfa Geirmundssyni, þegar hún var kornung. Hulda Fríða segir að hann hafi verið allt öðruvísi alkóhólisti en faðir hennar og játar að hún hafi verið lengi að kveikja á því.
„Ég hélt að allir alkóhólistar væru eins og pabbi en það kom í ljós að svo var ekki. Hann gerðist líka Vottur Jéhóva og ég ákvað að fara með í það tveimur árum síðar,“ segir hún.
„Ég hef reynt að fixa mig á trúarbrögðum,“ segir hún en seinna átti hún eftir að skilja við Torfa og segir að það hafi þótt mikil synd hjá Vottunum.
„Dóttir mín kom líka úr úr skápnum sem samkynhneigð og þá var okkur endanlega útskúfað,“ segir Hulda hlæjandi og bætir við að hún hafi lært margt um sjálfa sig og aðra á sínum tíma.
Í dag hefur Hulda unnið gríðarlega sjálfsvinnu og segir þá vinnu hafa bjargað sér. Hún er hamingjusamlega gift Villa, eða Villa meiriháttar, eins og hún kallar hann oftast á félagsmiðlum.
Hlustaðu á þáttinn hér að neðan.