The Japan Times skýrir frá þessu og segir að ekki sé endanlega búið að skera úr um dánarorsök mannsins en lögregluna gruni að þetta sé enn eitt dæmið um fyrirbæri sem nefnist „yami baito“ en þau hefjast oft með dularfullum atvinnuauglýsingum á samfélagsmiðlum. Vitað er um að minnsta kosti eitt annað mál af þessu tagi sem endaði með morði.
The Times segir að lögregluna gruni að morðið á manninum tengist að minnsta kosti sjö öðrum ránum sem hafa verið framin síðan í september í Kanto-héraðinu en það nær yfir höfuðborgina Tókýó og Yokohama.
Lögreglan hefur handtekið 20 manns sem eru grunuð um aðild að ránunum. Flest hinna handteknu segjast hafa verið ráðin til starfa í gegnum auglýsingar á netinu og hafi fengið fyrirmæli í gegnum dulkóðuðu samskiptasíðuna Signal.
Málin snúast meðal annars um rán hjá veðlánurum og nytjamörkuðum sem selja lúxusvarning. Einnig hafa rán verið framin á einkaheimilum og var úrum, skartgripum og reiðufé stolið. Í sex af sjö málum hlutu fórnarlömbin alvarlega áverka.
The Times segir að fram að þessu hafi mörg rán verið framin og að minnsta kosti eitt morð hafi verið staðfest. Öll málin voru skipulögð og fólki greitt fyrir af glæpamönnum.
„Yami baito“ þýðir „skuggaleg hlutastörf“. Þau hefjast oft með auglýsingum á samfélagsmiðlum á borð við X eða Facebook. Auglýst er eftir fólki til „skuggalegra starfa“ og er háum launum heitið.
Þegar fólk hefur sótt um er það beðið um nafn og heimilisfang og heimilisfang foreldra. Þessar upplýsingar geta glæpamennirnir síðan notað til að ógna fólki ef því snýst hugur. „Af því að ég hafði látið þeim persónulegar upplýsingar í té, átti ég engan annan kost en að taka þátt í ráninu,“ sagði einn hinna handteknu að sögn NHK sjónvarpsstöðvarinnar.