Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hyggst fara í leyfi frá störfum sínum hjá verkalýðsfélaginu á meðan hann sækist eftir sæti á Alþingi í komandi kosningum. Þetta staðfestir Ragnar Þór í samtali við Mbl.is en hann skipar fyrsta sæti á lista Flokks Fólksins í Reykjavík Norður. Hefur hann mátt sæta nokkurri gagnrýni fyrir að vera í fullu starfi hjá verkalýðsfélaginu samhliða kosningabaráttunni.
Boðað hefur verið til stjórnarfundar í VR á morgun þar sem Ragnar Þór mun leggja fram beiðnina um leyfið.
Aðspurður um hvað taki við ef hann nái kjöri á þing þá segir Ragnar Þór að það liggi í augum uppi að hann geti ekki sinnt tveimur störfum samtímis.