Svarthöfða rak í rogastans er hann sá samskipti formanns Samfylkingarinnar og oddvita í Reykjavík norður við kjósanda í kjördæminu um stöðu Dags B. Eggertssonar, fyrrverandi borgarstjóra, sem frambjóðanda og væntanlegs þingmanns. Rekur hann ekki minni til þess að hafa áður séð formann í einum flokki tjá sig opinberlega um frambjóðanda eigin flokks með slíkum hætti.
Svarthöfði þykist vita ( og veit reyndar) að Kristrúnu Frostadóttur var ekkert um að fá Dag í þingframboð fyrir Samfylkinguna, hverju sem það sætir, og vildi alls ekki fá hann sem oddvita í neinu kjördæmi. Ekki hafði hún samt afl til að halda honum alveg frá framboði.
Þetta virðist hafa farið brjóstið á formanninum sem ákvað að vera í skriflegum samskiptum við kjósanda og útlista fyrir honum nákvæmlega hvaða stöðu borgarstjórinn fyrrverandi myndi hafa sem frambjóðandi og þingmaður og benti honum jafnframt á að hann gæti sem hægast strikað Dag út ef hann gæti ekki hugsað sér að kjósa hann.
Stjórnmálaskýrendur velta fyrir sér hvort þessi samskipti Kristrúnar Frostadóttur flokkist undir afglöp vegna reynsluleysis eða séu úthugsað pólitískt útspil.
Skilaboðin frá Kristrúnu eru afgerandi:
„Ég er formaður flokksins og stýri málefnaáherslum með stjórn flokksins, Dagur verður óbreyttur þingmaður, ekki ráðherra, hann situr ekki í stjórn flokksins og mun ekki sitja í ríkisstjórn.“
Hún heldur áfram:
„En ég skil vel sjónarmið fólks sem vill ekki hafa hann og ef þú býrð og kýst í Reykjavíkur norður þar sem ég er oddviti og hann er í öðru sæti þá liggur beinast við að strika hann út í kjörklefanum. Ég bið þig að líta á heildarmyndina, áherslurnar sem ég hef barist fyrir undanfarin ár í húsnæðis-, efnahags- og heilbrigðismálum. Auðlindamálum. Það eru áherslurnar sem munu einkenna S í ríkisstjórn, ekki hvað borgin hefur gert. Dagur stýrir ekki S, ég geri það. Hann þarf að fylgja forystunni.“
Og áfram:
„… hann er aukaleikari, ekki aðal, í þessu verkefni. Staða hans á listanum breytir engu um áherslur S og þýðir ekki að ég sé samþykk öllu sem borgin hefur gert.“
Svarthöfði hefur lengi fylgst með pólitík og skilaboð Kristrúnar til kjósandans er nokkuð dæmigerð fyrir feðraveldi gærdagsins með öfugum formerkjum. Samt sagði feðraveldið gamla aldrei hlutina upphátt, lét nægja að skreyta listana með einni konu á táknrænan hátt. Sú kona var aldrei ráðherraefni, ávallt aukaleikari en ekki aðal.
Svarthöfði veltir fyrir sér hvernig umræðan nú væri ef Kristrún Frostadóttir væri karl og Dagur B. Eggertsson kona. Þætti svona afgreiðsla karls á konu vera í lagi? Ætli helstu skýrendur væru þá að velta fyrir sér hvort þessi lýsing hennar á stöðu Dags væri úthugsuð pólitísk snilld?