fbpx
Miðvikudagur 30.október 2024
Eyjan

Stefán Einar svarar fullum hálsi fyrir viðtalið við Lenyu: „Þeim verður ekki kápan úr því klæðinu, greyjunum“

Eyjan
Mánudaginn 28. október 2024 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmiðlamaðurinn Stefán Einar Stefánsson hefur ekki tekið með silkihönskum á þeim stjórnmálamönnum sem hafa mætt til hans í hlaðvarpið Spursmál. Fyrir vikið  hefur hann ítrekað fengið yfir sig gagnrýni sem hann gefur jafnan lítið fyrir. Að þessu sinni er það viðtal hans við nýjan leiðtoga Pírata, Lenyu Rún, sem hefur vakið athygli.

Vissi ekki hvað veiðigjaldið er hátt

Viðtalið kom út á laugardag og sló Morgunblaðið því upp í fyrirsögn að Lenya vildi hækka skatta án þess að vita hversu háir þeir eru í dag. Þar var vísað til svars Lenyu um veiðigjöldin. Hún sagðist vilja hækka þau en þegar Stefán Einar spurði hvort hún vissi hversu há þau eru í dag svaraði Lenya: „Guð, ég er bara ekki viss. Veist þú hvað þau eru há?“

Það vissi Stefán Einar og benti á að þau eru 33 prósent af reiknuðum hagnaði í fiskveiðum. Stefán Einar fylgdi þessu eftir og gekk á Lenyu, væri það forsvaranlegt að ætla að hækka skatta án þess að vita hvað þeir eru háir?

„„Stefán Ein­ar, þetta er allt í stefnu­vinn­unni sem er að fara fram akkúrat núna. við erum ekki bara að fara að leggja fram ein­hverja kosn­inga­stefnu sem seg­ir við ætl­um að hækka skatta, punkt­ur. Það verða alltaf skil­yrði fyr­ir hækk­un skatta ef við för­um þangað, sem við erum ekki búin að ákveða. Gras­rót­in þyrfti alltaf að kjósa um þessa stefnu­skrá,“

sagði Lenya þegar Stefán Einar spurði hvort það væri ekki eðlileg krafa að hún, sem varaþingmaður og lögfræðingur, hefði þetta á hreinu. Lenya sagði að það væri ekki hægt að ganga út frá því að stjórnmálamenn viti allt. Hún sé sérhæfð í evrópskri orkulögfræði. Efnahagsmálin séu hjá fólkinu í fjárlaganefnd og hún geti ekki svarað til um efnahagsstefnu Pírata þar sem stefnuvinna sé enn í gangi.

Þingmaðurinn Björn Leví Gunnarsson kom Lenyu til varna í færslu á Facebook eftir viðtalið. Þar velti hann fyrir sér hvers vegna stjórnmálamenn eigi að vita skattprósentur „upp á kommur“, enda snúist starf þingmanna ekki um nákvæmar prósentur heldur um það hvort kerfið virki eða ekki. Píratar hafi í fyrri kosningum gefið út „skuggafjárlög með allskonar nákvæmum tölum um hitt og þetta“. Þetta hafi skilað sér í trúverðugustu efnahagsstefnunni að mati sérfræðinga en ekki skilað flokknum auknu fylgi.

Svarar gagnrýninni fullum hálsi

Stefán Einar, eins og honum er lagið, hefur nú svarað Birni fullum hálsi í sinni eigin færslu og segir eðlilega kröfu að þingmenn viti skattprósentur, og það jafnvel upp á kommu.

„Þarf skurðlæknir ekki að vita hvort hann eigi að nota hníf númer 1 eða 2 eða svæfingalæknirinn að vita hvort hann eigi að dæla 5 eða 10 mg af propofol í líkama sjúklingsins. Ekki viljum við að stjórnmálamennirnir sem fara með skattlagningarvaldið séu eins og verkfræðingarnir sem reiknuðu út burðarþolið á þaki Brákarborgar, sem nærrum því féll yfir leikskólabörnin sem þar voru vistuð.“

Stefán Einar bendir að Björn Leví hafi nú ítrekað krafið ráðuneyti og stofnanir ríkisins um nákvæm svör, en þó hafi það farið framhjá Birni að Stefán Einar var ekki að krefja Lenyu um að svara til um skatthlutfall upp á prósentu.

„Ég spurði einfaldlega hvort hún vissi hver veiðigjöldin á útgerðina væru um þessar mundir. Svarið var ekki að hún vissi það ekki upp á aukastafi. Hún sagðist einfaldlega ekki hafa hugmynd um það.

Það er fréttnæmt, jafnvel þótt Píratar og sósíalistar og aðrir góðir menn leyfi sér í ljósi spurninganna að kalla mig siðlausan og kalli jafnvel eftir því að mér verði slaufað.

Þeim verður ekki kápan úr því klæðinu, greyjunum. “

Björn Leví hélt því þá fram í athugasemd að Stefán Einar hafi ekki hugmynd um hvernig starf þingmannsins er. Lögum samkvæmt séu þeir eingöngu bundnir við sannfæringu sína. Það geti ekki allir verið sérfræðingar í öllu eða sett sig 100% inn í öll mál. Þingmenn taki samviskuákvarðanir um hvort eigi að samþykkja einstaka mál eða ekki.

Ekki fyrsta sinn sem leiðtogi Pírata stendur á gati

Blaðamaðurinn Andrés Magnússon skrifar líka athugasemd og gerði athugasemd við þessi skuggafjárlög sem Björn minntist á. Þá hafi einmitt þáverandi leiðtogi Pírata mætt í viðtal og gat litlu svarað um þessa fínu stefnu.

„Merkilegt að Björn hafi orð á „skuggafjárlögum“ Pírata. Ég lagði á mig fyrir síðustu kosningar að lesa þessi áform yfir, sem voru vissulega mjög löng en með ýmsum skrýtnum forsendum og mjög laus við útskýringar um hvernig átti að ná þeim markmiðum fram. Og kostnaður, beinn sem óbeinn, litaður mikilli óskhyggju ef hans var það getið.

En þegar Halldóra Mogensen kom í leiðtogaviðtal til okkar um kosningastefnuna kom á daginn að hin gat litlu um hana svarað, hvað þá svona leiðindum eins og um útgjöld og tekjur ríkisins. Enn síður um hluti eins og kostnaðinn af hugmyndum um borgaralaun.

Það geta allir gasprað um landsins gagn og nauðsynjar á kaffistofunni, en alþingismenn kjósum við einmitt til þess að úthugsa málin og þekkja þau til hlítar. Og horfa ekki bara á ætluð markmið heldur afleiðingarnar líka. Með hag borgaranna fyrir brjósti, ekki óskhyggju, gæluverkefni eða hugdettur.
Nálgun Pírata hefur verið önnur.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Sanna Magdalena: Bætum heilbrigðisþjónustuna innan opinbera kerfisins – sparnaður í einkarekstri er á kostnað starfsfólksins

Sanna Magdalena: Bætum heilbrigðisþjónustuna innan opinbera kerfisins – sparnaður í einkarekstri er á kostnað starfsfólksins
Eyjan
Í gær

Bandarísku forsetakosningarnar eru ekki fyrr en í næstu viku en orðrómarnir eru nú þegar komnir á kreik

Bandarísku forsetakosningarnar eru ekki fyrr en í næstu viku en orðrómarnir eru nú þegar komnir á kreik
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sanna Magdalena: Börn ríkra eiga líka að fá gjaldfrjálsar skólamáltíðir – þjóðin fái að kjósa um gjaldmiðilinn

Sanna Magdalena: Börn ríkra eiga líka að fá gjaldfrjálsar skólamáltíðir – þjóðin fái að kjósa um gjaldmiðilinn
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Könnun – Hvaða flokk ætlar þú að kjósa?

Könnun – Hvaða flokk ætlar þú að kjósa?
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þorgerður Katrín leiðir lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi

Þorgerður Katrín leiðir lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ingvar leiðir lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi

Ingvar leiðir lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi