Samkvæmt nýrri könnun Maskínu, sem kynnt var í hádegisfréttum Bylgjunnar og fjallað er um á Vísi, er Samfylkingin enn sem fyrr stærsti flokkurinn og mælist fylgi hans 22,2%. Fylgi flokksins hefur dalað að undanförnu og var það um 27% um tíma í vor.
Viðreisn er orðinn næst stærsti flokkur landsins og er fylgi hans nú 16,2%. Í maí var fylgi Viðreisnar rétt rúmlega 9%. Miðflokkurinn kemur þar skammt á eftir en fylgi hans er 15,9% eftir að hafa farið hæst í 17,0% í septembermánuði.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt undir högg að sækja að undanförnu og mælist fylgi hans nú 13,9%. Hefur flokkurinn bætt örlítið við sig frá síðustu könnun þegar fylgið mældist 13,7%.
Flokkur fólksins mælist með 9,3% fylgi en í síðustu könnun Maskínu var fylgi hans 6,6%. Í könnun Prósents sem kynnt var á föstudag mældist Flokkur fólksins með 11,4% fylgi.
Framsóknarflokkurinn mælist svo með 6,9% fylgi en fleiri flokkar en ofantaldir myndu ekki koma manni á þing ef niðurstöður kosninganna væru í samræmi við könnun Maskínu.
Píratar mælast með 4,5% fylgi, Sósíalistaflokkurinn 4,0% og VG með 3,8% fylgi. Lýðræðisflokkurinn er svo með 1,6% fylgi.