Ragnhildur Þórðardóttir, Ragga nagli, fjallar um tilfinningalegan þroska í nýjustu færslu á Facebook-síðu sinni. Þar segir hún að tilfinningalegur þroski er færni og hæfni til að takast á við lífið.
„Fólk sem er tilfinningalega fullþroska stjórnar tilfinningum sínum og viðbrögðum óháð kringumstæðunum. Það tekur ábyrgð á eigin gjörðum og getur beitt sjálfsskoðun á eigin hegðun.
Tilfinningalega vanþroskað fólk hinsvegar bregst við af hvatvísi með tilfinningalegum ofsa. Þau eru með fullorðinn líkama en barnalegar tilfinningar. Þau ýttu í rauninni á pásu sem börn eða unglingar í tilfinningalegum þroska. Þau eru nafli alheimsins og gera óraunhæft tilkall til annarra til að þjónusta þau. Að eiga samskipti eða vera í sambandi við slíkt fólk skilur þig eftir eins og útspýtt hundsskinn, gjörsamlega mergsogin af allri orku og sundurtætt í streitukerfinu,“ segir Ragga.
Ragga listar síðan upp nokkur merki um að einhver sé tilfinningalegan vanþroska:
🔵 Útvista neikvæðum tilfinningum og kenna öðrum um eigin vanlíðan. Gera börnin sín, makann, vinina, systkinin ábyrg fyrir hvaða tilfinningar þau upplifa og það sé skylda annarra að sefa þeirra neikvæðu tilfinningar.
🔵 Vanvirða mörk og reyna ítrekað að rífa þau niður með allskyns aðgerðum. Þau álíta það höfnun ef þú segir NEI. Þér þyki greinilega ekki nógu vænt um þau til að veita frjálsan aðgang að þínu lífi. Þess vegna verða þau móðguð og sár ef þú biður um að þitt einkalíf sé virt.
🔵 Sambandið er algjör einstefna þar sem þau eiga tilkall til tíma þíns, athygli og orku í að hlusta og veita ráðleggingar en virkar aldrei í hina áttina.
Ef þú talar um þitt líf, eða deilir einhverju, þá er talað yfir þig, gripið frammí, skipt um umræðuefni því þau hafa ekki tilfinningalegan þroska til að takast á við hvað annað fólk gengur í gegnum. Þegar þau eru í tilfinningalegu uppnámi krefjast þau athygli þinnar, en bjóða ekki aðstoð þegar þú þarft á því að halda. Því samkenndin þeirra er NÚLL.
🔵 Samviskubitsvæða þig til að fá sínu framgengt. Koma inn hjá þér samviskubiti og sektarkennd og hræðslu og þvinga þannig í að gera eitthvað sem er þeim þóknanlegt. Rifjað upp ALLT sem þau hafa gert fyrir þig og þess vegna skuldir þú þeim. Eða rifjað upp ALLT sem þú hefur mögulega gert á þeirra hlut og þess vegna hefur þú nú tækifæri til að bæta það upp.
🔵 Sýna tilfinningar í gegnum hegðun eins og þagnarbindindi, hunsun, dæsa, rúlla augum, loka sig inni í herbergi í staðinn fyrir að ræða málin í rólegheitum. Því þau skortir færni fyrir heilbrigð samskipti. Eins og smábörn ætlast tilfinningalega vanþroskað fólk til að þú vitir hvernig þeim líður án þess að þau þurfi að segja eitt einasta orð.
🔵 Biðjast ALDREI afsökunar. Sýna ALDREI auðmýkt né iðrun á neinu sem þau segja eða gera. Það væri merki um veikleika sem myndi brjóta sjálfsmyndina sem þegar er í molum. Það lendir alltaf á þér að biðjast afsökunar eftir rifrildi.
🔵 Gagnrýni eða endurgjöf er mjög illa tekið og túlkað sem persónuleg árás sem er mætt með himinháum varnarmúr og grjótharðri gagnárás. Tilfinningalega vanþroskað fólk passar uppá egóið sitt eins og Gollum með hringinn og ef einhver vogar sér að segja eitthvað sem mögulega getur sett dæld í heimsmynd þeirra að vera með allt uppá tíu.
„Tilfinningalega vanþroskað fólk hefur ekki innsýn í eigin hegðun og framkomu. Þér finnst vera snara um hálsinn á þér og upplifir köfnunartilfinningu í samskiptum við slíkt fólk.
🔶 Ef þú vilt eða þarft að vera í samskiptum við tilfinningalega vanþroskað fólk þá þarftu að setja skýr mörk og ekki hvika millimeter frá þeim þó þau móðgist eða reyni að rífa þau niður.
🔶 Ef þú ætlar að taka samtalið um að framkoma þeirra sé ekki boðleg er best að tala út frá þér sjálfum/sjálfri og hvaða áhrif það hefur á þínar tilfinningar.
🔶 Hvettu viðkomandi til að stunda sjálfsrækt því oftar en ekki eru þetta brotnar litlar sálir sem eru stöðugt í gremju mjög oft yfir slæmu uppeldi eða áföllum í æsku. Sjálfsrækt fær þau til að lækka streitustigið og styrkja hjá þeim sjálfsmyndina.
🔶 Leitaðu til fagaðila til að fá verkfæri til að bregðast við þeirra framkomu.
Ef viðkomandi breytir ekki hegðun og heldur áfram andlegu ofbeldi í þinn garð þarftu að vernda eigin sálarheill, segja sæjónara og klippa á samskiptin.
Það er ekki bara kvóti á fiskinn. Það er líka kvóti á hversu miklar svívirðingar þú þolir.“