fbpx
Mánudagur 28.október 2024
Fréttir

Höfuðpaurinn í Sólheimajökulsmálinu ber vitni – „Þetta er ekki ég, ég kannast ekki við þetta“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 28. október 2024 10:45

Jón Ingi (t.h) við þingfestingu málsins í ágústmánuði. Mynd; DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Ingi Sveinsson, sem talinn er vera höfuðpaurinn í stórfelldu fíkniefnamáli, svokölluðu Sólheimajökulsmáli (einnig kallað stóra fíkniefnamálið) bar nú rétt í þessu vitni í málinu við Héraðsdóm Reykjavíkur.

„Þetta er ekki ég, nei,” sagði Jón er borin voru undir hann afrit úr hlerunum lögreglu sem sýna samskipti sakborninga varðandi skipulagningu stórfelldra fíkniefnabrota. Neitaði Jón Ingi sök varðandi ákæru um skipulagða brotastarfsemi og véfengdi hljóðritanir lögreglu.

Málið er gífurlega umfangsmikið og eru hin ákærðu samtals 18, þar af fimm konur og 13 karlar. Nú þegar hafa þrír sakborningar játað sök samkvæmt ákæru og hafa mál þeirra því verið afgreidd sér. Eftir eru 15 sakborningar. Sem fyrr segir er Jón Ingi álitinn vera höfuðpaur hópsins og talinn hafa rekið hann undanfarin ár sem fyrirtæki, þar sem fólk var ráðið til starfa, greiddregluleg laun og eftir atvikum rekið. Þetta kemur fram í viðamiklum rannsóknargögnum lögreglu í málinu sem DV hefur undir höndum og hefur áður greint frá.

Sjá einnig: Ákæran í stóra fíkniefnamálinu:Afi og amma geymdu efnin heima hjá sér og seðlabúnt voru flutt á bifreiðaverkstæði í Auðbrekku

Mögulega starfaði hópurinn í um fimm ára skeið en lögreglan komst á snoðir um starfsemina í septembermánuði 2023. Samkvæmt viðamiklum rannsóknargögnum lögreglu rakti lögreglan rafræn samskipti milli aðila hópsins eftir að ein manneskja úr hópnum hafði verið handtekin vegna gruns um sölu amfetamíns. Í kjölfarið komst lögreglan yfir gögn sem sýndu samverknað fólksins við kaup, dreifingu og sölu fíkniefna, sem og peningaþvætti.

Rannsókn lögreglunnar stóð út mars á þessu ári en ákæra var birt sakborningum um mitt sumar. Hlutverk fólks í hópnum var misveigamikið, sum eru ekki ákærð fyrir annað en að geyma fíkniefni á heimilum sínum, á meðan önnur, helmingur ákærðra, eru ákærð fyrir skipulagða brotastarfsemi. Eru þau meðal annars talin hafa lagt á ráðin í gegnum spjallgrúppu á samskiptaforritinu Signal sem var kölluð „Sólheimajökull“ en þaðan er dregið heitið „Sólheimajökulsmálið“.

Ljóst er að lögregla telur starfsemi hópsins hafa verið mjög umfangsmikla en þó er það svo að við rannsókn málsins, allt frá því í september og út mars, er heildarmagn upptækra efna aðeins rúmlega sex kíló, að mestu kókaín og amfetamín. Einn sakborninga, sem ræddi við DV í sumar, gaf þá skýringu á þessu að starfsemi hópsins hafi nánast verið lömuð haustið 2023. Lögregla hafi þá fundið um fjögur kíló af efnum í húsleitum sakborninga í september og síðan bætast við rúmlega tvö kíló í máli sem kom upp í mars, þegar fjórir aðilar, þar á meðal höfuðpaurinn Jón Ingi Sveinsson, stóðu að innflutningi kókaíns í gegnum skemmtiferðaskipið Aida Sol.

Sjá einnig: Einkaviðtal við sakborning í stóra fíkniefnamálinu – „Ég veit ekki hver hirðir alla peningana en það erum ekki við“

Afar létt var yfir sakborningnum Jón Inga sem átti í glaðværum samræðum við starfsfólk og lögmenn í aðdraganda þinghaldsins. Jón Ingi er sagður viðkunnanlegur maður og raunar gildir það um marga fleiri af sakborningunum, sem hafa til dæmis margir lagt áherslu á að beita ekki ofbeldi og hafa fíkniefnaviðskipti sín ofbeldislaus.

„Lögreglan verður líka að fara að lögum

Höfuðpaurinn Jón Ingi Sveinsson, neitaði sem fyrr segir, sök varðandi skipulagða brotastarfsemi. Hann sagðist engan veginn kannast við öll þau hlutverk sem lögregla væri að setja hann í í skýrslum sínum.

Jón Ingi og verjandi hans mótmæltu harðlega framlagningu afritana úr hljóðritunum af samtölum hans við aðra sakborninga varðandi skipulagningu fíkniefnabrota, sem flest áttu sér stað í gegnum samskiptaforritið Signal. Sögðu þeir að hljóðritanirnar væru ólöglegar þar sem Jón Ingi hefði verið staddur erlendis, í Dómíníska lýðveldinu er þær voru gerðar, og ólöglegt væri að hlera símtöl manna erlendis.

„Þetta er ólöglegar hljóðritanir, lögregla verður líka að fara að lögum,sagði Jón Ingi. Tókust saksóknari og hann á um þetta nokkra stund og hækkuðu báðir róminn.

„Ég er ekki sammála þér,sagði saksóknari er Jón Ingi sagði gögnin vera marklaus. „Við verðum þá bara að vera sammála um að vera ósammála,“ sagði þá Jón.

„Ég bara neita sök, ég veit ekkert um þessi fíkniefni,sagði Jón Ingi.

Aðspurður hvort hann þekkti aðra sakborninga í málinu þá sagðist hann þekkja suma en aðra ekki. Er saksóknari fór yfir nöfn sakborninga þá sagði hann um þann sem talinn er vera annar helsti höfuðpaurinn að þeir hefðu verið saman til sjós. Um annan sakborning sagðist hann hafa stundað hnefaleika með honum.

„Vinur minn, kunningi minn, vinkona mín,” sagði hann er upptalningin á sakborningum hélt áfram.

„Ferlegt að fá ekki meira frá tönninni”

Aðspurður kannaðist Jón Ingi við að hafa notað samskiptaforritið Signal. Hann kannaðist hins vegar ekki við að hafa verið að ræða þar um starfsemi hópsins með nokkrum öðrum sakborningum. Hann neitaði að ræða innihald samskiptanna þar sem hljóðritanirnar væru ólöglegar.

„Ég ætla ekki að ræða þetta, þetta eru ólöglegar upptökur, ef þetta er þá ég. Lögreglan verður að fara að lögum líka.“

Hann var spurður út í önnur hlerunargögn þar sem Jón Ingi var að hrósa öðrum sakborningi fyrir vel unnin störf. Hann sagðist ekki vita hvað þetta kæmi haldlögðum fíkniefnum við.

„Ég ætla ekki að tjá mig um þetta,” sagði Jón Ingi og hækkuðu bæði hann og saksóknari róminn.

Saksóknari spurði Jón út í þessi ummæli: „Ferlegt að fá ekki meira frá tönninni” – en þetta virðist vísa til þess að hópurinn hafi verið í viðskiptum við Svedda tönn varðandi innkaup á fíkniefnum.

„Það er verið að ákæra mig fyrir einhver efni og það kemur þessu ekki við. Ég svara þessu ekki,“ sagði Jón Ingi.

Brást hann með svipuðum hætti við nánast öllum spurningum saksóknara varðandi gögn úr hljóðritunum:

„Ég er ekki að fara að svara þessu.“

„Ég er ekki að ræða það, ég er ekki að segja það. Mér finnst bara ekki liggja fyrir að þetta sé ég sem er í þessu samtali.”

„Nei, ég man ekki eftir þessu samtali.”

„Þetta er ekki ég, nei.”

„Þessi samskipti? Nei, þetta er ekki ég. Þetta er einhver allt annar aðili en ég.”

Jón Ingi kannaðist heldur ekki við símtal þar sem hann ræddi um að sækja ætti til hans peninga. „Þetta er ekki ég, ég kannast ekki við þetta.”

„Þetta eru bara bitlausir rýtingar

Er Jón Ingi var spurður út í vörslu fíkniefna sem lögregla fann hjá honum þá játaði hann vörslu. Spurður út í brot á vopnalögum vegna hnífa sem fundust hjá honum, þá sagði hann: Ég ætla að mótmæla þessu, þetta eru bara bitlausir rýtingar.”

Annar meintur höfuðpaur í málinu, sá er rak bílaverkstæðið Bílvogur, sem kom sterklega við sögu í rannsókn málsins, vegna flutninga á reiðufé þar í gegn, brást svipað við og Jón Ingi varðandi spurningar um gögn úr hljóðritunum. Hann kannaðist ekki við að vera sá maður sem vísað var til í gögnunum. Neitaði hann sök um skipulagða brotastarfsemi.

Réttarhöldin halda áfram í dag og fjóra næstu daga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þórunn sár og reið út í Bjarna: „Nú eru það svo múslimar sem fá að heyra það“

Þórunn sár og reið út í Bjarna: „Nú eru það svo múslimar sem fá að heyra það“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ragnar við það að gefast upp á lögreglustarfinu eftir morðölduna á árinu – „Sum mál sitja lengur í manni en önnur“

Ragnar við það að gefast upp á lögreglustarfinu eftir morðölduna á árinu – „Sum mál sitja lengur í manni en önnur“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Valgeir telur sig hlunnfarinn og veltir fyrir sér hvort hann sé heiðraður eða lítilsvirtur

Valgeir telur sig hlunnfarinn og veltir fyrir sér hvort hann sé heiðraður eða lítilsvirtur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Naumlega tókst að forðast mikinn árekstur í Vestmannaeyjahöfn – Skipstjóri Herjólfs fór ekki að beiðni hafnsögumanns

Naumlega tókst að forðast mikinn árekstur í Vestmannaeyjahöfn – Skipstjóri Herjólfs fór ekki að beiðni hafnsögumanns