fbpx
Mánudagur 28.október 2024
Fréttir

Uppnám eftir afhjúpandi skilaboð Kristrúnar til kjósanda – „Þetta er ógeðsleg framkoma“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 27. október 2024 09:00

Mynd/Baldur Kristjánsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmiðlar greindu frá í gærkvöldi skilaboðum Kristrúnar Frostadóttur formanns Samfylkingarinnar til kjósanda, sem lýsti yfir áhuga á að kjósa Samfylkinguna en sendi henni skilaboð vegna óánægju sinnar með að Dagur B. Eggertsson fyrrverandi borgarstjóri væri í öðru sæti, á eftir henni, á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í komandi alþingiskosningum. Í svari til kjósandans gerði Kristrún sem minnst úr væntanlegu hlutverki Dags, lagði áherslu á að hann yrði ekki ráðherra og benti kjósandanum á að hann gæti kosið Samfylkinguna en strikað yfir nafn Dags. Kristrún bætti því við að það væri hún sem stjórnaði í Samfylkingunni en ekki Dagur. Kjósandinn birti skilaboðin frá Kristrúnu á Facebook. Þau dreifðust hratt og sköpuðu nokkurt uppnám í stjórnmálunum sem líklega sér ekki fyrir endann á en viðbrögðin eru misjöfn, enda er það oftast þannig með stjórnmál að sitt sýnist hverjum.

Kjósandinn mun hafa birt samskipti sín við Kristrúnu í hópi fyrir íbúa í Grafarvogi. Gerði hann það í athugasemd við færslu en athugasemdin virðist hafa verið fjarlægð. Grafarvogur tilheyrir Reykjavík norður og mikil óánægja hefur verið meðal íbúa þar með áform borgaryfirvalda um þéttingu byggðar í hverfinu og því voru íbúarnir ekki sáttir með að Dagur yrði í framboði í þeirra kjördæmi. Í færslunni sem athugasemdin var birt við segist viðkomandi aðili vera hættur við að kjósa Samfylkinguna vegna veru Dags á listanum og kallar hann óvin Grafarvogs en þó innan gæsalappa.

Löngum hefur verið altalað að Kristrún hafi verið treg til að fá Dag með á listann vegna þess hversu umdeildur hann sé.

Stuðningur úr öðrum flokkum

Þegar kemur að viðbrögðum við þessum orðum Kristrúnar enn sem komið er hefur Dagur helst fengið stuðning frá fólki úr öðrum flokkum sem starfað hefur með honum í meirihluta borgarstjórnar. Fjallað hefur verið um Facebook-færslu Dóru Bjartar Guðjónsdóttur oddvita Pírata í borgarstjórn.

Dóra Björt segist gáttuð á þessu framferði Kristrúnar og segir það afhjúpa ótrúlega takmarkaðan skilning á vægi Dags til lengri tíma við mótun borgarinnar, dýpt hans þekkingar á stjórnmálunum og málefnunum og getu til að halda utan um flókið samstarf. Það sé hreinlega synd að búið sé að taka fyrir að Dagur verði ráðherra og það sé sóun á hans hæfileikum og tapað tækifæri fyrir Samfylkinguna og samfélagið. Dóra Björt spyr að lokum hvort áróður Sjálfstæðisflokksins gegn einum allra áhrifamesta stjórnmálamanni Samfylkingarinnar fyrr og síðar sé búinn að blinda formann flokksins.

Í athugasemdum við færslu Dóru Bjartar hafa skapast afar líflegar umræður. Sema Erla Serdaroglu sem starfaði lengi í Samfylkingunni en yfirgaf flokkinn eftir stefnubreytingar ekki síst í innflytjendamálum, eftir að Kristrún tók við, lýsir yfir mikilli óánægju með framferði formannsins:

„Þetta er ógeðsleg framkoma og sæmir alls ekki formanni stjórnmálaflokks. Þú talar ekki sem formaður og oddviti flokks þíns um samflokksfólk þitt með þessum hætti við kjósendur. Þú stendur með fólkinu þínu! Tala nú ekki um þegar um er að ræða næsta mann á lista þínum, sérstaklega í ljósi þess að um er að ræða einstakling sem hefur verið töluvert lengur í flokknum og pólitískum störfum fyrir hann en sá sem ritar. Þetta er öll samheldnin og samstaðan hjá Samfylkingunni og er ekkert nýtt. Svo er þessi einsræðisorðræða Kristrúnar mjög óhugnanleg.“

Af hverju?

Í öðrum athugasemdum við færslu Dóru Bjartar tekur fólk ýmist upp hanskann fyrir Dag, bendir á að hægt sé að strika hann út hafi fólk áhuga á að kjósa Samfylkinguna eða andmælir Dóru Björt og lýsir yfir óánægju sinni með fyrri störf Dags:

„Af hverju í ósköpunum ertu að koma þér í fjölmiðla með þetta? Dagur er ekki aðeins umdeildasti stjórnmálamaður landsins – og orkar verulega tvímælis hvort hann styrkir Samfylkinguna eða ekki – heldur hefur hann öðrum fremur hindrað íbúðauppbyggingu í Reykjavík m.a. á þeirri forsendu að það borgi sig ekki fyrir sveitarfélög að setja upp ný íbúðarhverfi og er því (með)höfundur að húsnæðisleysi ungs fólks á höfuðborgarsvæðinu, uppsprengingu verðs á húsnæði og því kannski helsti orsakavaldur verðbólgunnar.“

„Að kalla Dag einn áhrifamesta pólítíkus Samfylkingarinnar fyrr og síðar segir mér að það sé ekki eingöngu formaður Samfylkingarinnar sem hefur blindast af áróðri.“

Grjóthörð eða krútt?

Einnig hefur verið fjallað um viðbrögð Líf Magneudóttur borgarfulltrúa Vinstri grænna sem hefur starfað með Degi í meirihluta borgarstjórnar. Hún lýsti yfir óánægju með þessi orð Kristrúnar, á Facebook, en í athugasemd við eigin færslu bætir hún því við að Kristrún verði að svara fyrir þessi ummæli en í samtölum við fjölmiðla segist Kristrún standa við ummælin:

„Mér finnst bara rétt að Kristrún svari lykilspurningum um hvað hún hyggst fyrir með reynslu og áherslur Dags í „hugsanlegu“ ríkisstjórnarsamstarfi því þar eru óunnin verkefni sem var ýtt úr vör í borginni með m.a. vg innanborðs. Kallaðu það leðjuslag eður ei en þetta er staðreyndin og Kristrún verður að svara fyrir þetta. En và. Þessi status snýst ekki um vg heldur verkefnin framundan. Höfum það á hreinu.“

Björn Ingi Hrafnsson fjölmiðlamaður og fyrrverandi borgarfulltrúi segir hins vegar á X að þessi orð Kristrúnar bendi til að hún sé einfaldlega grjóthörð:

„Grjótharðasti formaður Íslandssögunnar? Efnislega er Kristrún að segja að ekki hafi verið hægt að hafna Degi alfarið svo skömmu fyrir kosningar án þess að valda usla í baklandinu, en hann verði þó enginn forystumaður. „All­ir þeir sem koma inn í þetta verk­efni, þeir eru að gera það á for­send­um for­manns, á for­send­um for­yst­unn­ar og flokks­ins og munu vinna sam­kvæmt okk­ar plani.““

En svo eru aðrir sem taka þátt í umræðunni um þessi orð Kristrúnar í garð flokksfélaga síns sem skemmta sér yfir öllu saman. Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og frambjóðandi Sósíalistaflokksins skrifar einfaldlega á sína Facebook-síðu, þar sem hún deilir frétt um skilaboð Kristrúnar til kjósandans:

„Krúttin!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslendingar ræða ofbeldisölduna sem ríður yfir landið – „Hver andskotinn er í gangi“

Íslendingar ræða ofbeldisölduna sem ríður yfir landið – „Hver andskotinn er í gangi“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Svona mikið mun reikningurinn vegna forsetaskiptanna hækka

Svona mikið mun reikningurinn vegna forsetaskiptanna hækka
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Magnús sorgmæddur yfir lokun Roðasala: „Þarna vildum við að Ellý fengi að búa“

Magnús sorgmæddur yfir lokun Roðasala: „Þarna vildum við að Ellý fengi að búa“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Orlofsgreiðslur Dags draga dilk á eftir sér fyrir borgina – Sólveig Anna greinir frá fullnaðarsigri

Orlofsgreiðslur Dags draga dilk á eftir sér fyrir borgina – Sólveig Anna greinir frá fullnaðarsigri
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ákærður 2006 fyrir tilraun til manndráps eftir að hafa stungið föður sinn – Situr nú í gæsluvarðhaldi vegna andláts móður sinnar

Ákærður 2006 fyrir tilraun til manndráps eftir að hafa stungið föður sinn – Situr nú í gæsluvarðhaldi vegna andláts móður sinnar
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hvað finnst Norðmönnum um Íslendinga? „Við Norðmenn verðum einfaldlega að hneigja okkur“

Hvað finnst Norðmönnum um Íslendinga? „Við Norðmenn verðum einfaldlega að hneigja okkur“