Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, mun draga sig úr framlínu stjórnmála að loknu núverandi kjörtímabili og er því ekki í kjöri til komandi alþingiskosninga.
Greinir hann frá þessu í færslu á Facebook og hefur þegar tilkynnt kjörnefnd kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um ákvörðun sína.
„Kæru vinir og félagar.
Ég vildi upplýsa ykkur um það að ég hef í dag tilkynnt kjörnefnd kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um þá ákvörðun mína að draga mig út úr framlínu stjórnmálanna við lok þessa kjörtímabils. Ég mun því ekki verða í kjöri til þings í kosningunum 30. nóvember næstkomandi. Hér er um að ræða persónulega ákvörðun, sem vissulega hefur verið að brjótast um í mér lengi, en ég hef fundið það sterklega að undanförnu að ég væri tilbúinn til að breyta um vettvang eftir að hafa setið á Alþingi í meira en 21 ár og gegnt embætti forseta Alþingis undanfarin þrjú ár. Að sama skapi hef ég fundið fyrir miklum velvilja í minn garð og fengið hvatningu til að halda áfram. Þannig hef ég fundið stuðning af hálfu bæði kjörnefndar og náinna samstarfsmanna við að ég sæti áfram í þriðja sæti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.
Mér þykir afar vænt um þennan stuðning en tel engu að síður rétt fyrir mig að taka þessa ákvörðun. Ég mun að sjálfsögðu berjast áfram með frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins í kosningabaráttunni og verð áfram tilbúinn að verða vinum mínum og samherjum innan handar í stjórnmálastarfinu eftir því sem þörf krefur.“