Ragnar Jónsson, blóðferlasérfræðingur hjá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, er farinn að hugsa sér til hreyfings eftir 33 ár í lögreglunni. Ástæðan er sú morðalda sem hefur riðið yfir landið á þessu ári en átta manndráp hafa verið framin það sem af er árinu.
Þetta kemur fram á RÚV en rætt var við Ragnar í þættinum „Þetta helst“. Segist Ragnar vera við það að gefast upp á starfinu. Hann segir þetta hafa verið erfiðasta árið á 33 ára starfsferli hans enda eigi þessi morðtíðni sér ekki hliðstæðu í Íslandssögunni.
Ragnar segir að starfsmenn í tæknideild lögreglunnar reyni að brynja sig fyrir þeim óhugnaði sem fylgir verkefnum þeirra en staðreyndin sé sú að allir séu mannlegir og sum mál sitji lengi í honum:
„Til að sefa sjálfan sig þá verður þú að horfa á þetta sem verkefni. Maður reynir að púsla sér saman þannig að við séum þarna stödd til að skrá allt með ljósmyndum og sýnatökum. Okkar hlutverk sé að leita sannleikans. (…) Svo kemur kannski seinna einhver óþægileg tenging. Barnið getur verið í eins fötum og þitt eigið barn. Ég get ekki þrætt fyrir það að sum mál sitja lengur í manni en önnur.”
Ragnar bendir einnig á að í tæknideild lögreglunnar séu alltaf tveir einstaklingar á bakvakt allan sólarhringinn og það taki mikið á:
„Það gleymist líka stundum að við erum átta sem sinnum útköllum yfir árið. Við erum þrjá og hálfan mánuð á ári á bakvakt sem er gríðarlega mikil skuldbinding. Mín tilfinning og annarra er sú að allt þetta ár höfum við meira og minna verið að fara í alvarleg mál og varla búin að ná utan um þau þegar næsta kemur upp.”