Gunnar Smári Egilsson fjölmiðlamaður og einn af forvígismönnum Sósíalistaflokksins fjallar um það hlutfall atkvæða sem flokkar á Íslandi þurfa til að komast inn á þing í nýrri Facebook-færslu. Hann telur bersýnilega þann þröskuld vera of háann og segir að gömlu flokkarnir hafi sett þessi ákvæði í lög til að verjast nýjum flokkum.
Gunnar Smári segir að atkvæðahlutfall flokksins í síðustu alþingiskosningum hefði dugað til að ná á þing á öllum Norðurlöndunum og einnig í Færeyjum og á Grænlandi. Flokkurinn fékk 4,1 prósent atkvæða í kosningunum 2021.
Samkvæmt kosningalögum þarf að fá að minnsta kosti 5 prósent atkvæða á landsvísu til að fá jöfnunarsæti á Alþingi. Flokkur sem nær því ekki getur hins vegar fengið kjördæmakjörinn þingmann fái hann nægilega mikið fylgi til þess í tilteknu kjördæmi, þá meira en á landsvísu.
Þegar kemur að slíkum þröskuldum á Norðurlöndunum þá þarf 4 prósent atkvæða á landsvísu í Noregi til að fá jöfnunarsæti á þingi. Það gerðist hins vegar í síðustu þingkosningum að flokkur fékk 0,17 prósent atkvæða á landsvísu en 12,7 prósent í eina kjördæminu þar sem hann bauð fram og það dugði til að hljóta þingsæti.
Í Svíþjóð þarf flokkur að fá 4 prósent atkvæða á landsvísu til að komast inn á þing eða tólf prósent í tilteknu kjördæmi.
Í Danmörku þarf flokkur að fá í minnsta lagi 2 prósent á landsvísu til að fá jöfunarsæti eða nægilegt fylgi í tilteknu kjördæmi til að fá kjördæmakjörinn þingmann.
Í Finnlandi er ekkert lágmarks hlutfall atkvæða á landsvísu sem flokkar þurfa að ná til að fá þingsæti. Það dugir að fá nægilegt fylgi í tilteknu kjördæmi, samkæmt hinni svokölluðu D´Hondt reiknireglu sem notuð er í þingkosingum víða um heim og verður ekki útskýrð nánar hér.
Í kosningum til færeyska lögþingsins er allt landið eitt kjördæmi og þarf hver flokkur að ná að lágmarki 3,03 prósent atkvæða til að fá þingsæti. Það er 1/33 hluti atkvæða en þingmenn eru alls 33.
Sams konar reglur eru á Grænlandi og í Færeyjum. Grænland er eitt kjördæmi, þingmenn eru 31 og flokkar þurfa 1/31 hluta atkvæða til að fá þingsæti, 3,22 prósent.
Það er því laukrétt hjá Gunnari Smára að hefði hinn íslenski sósíalistaflokkur fengið 4,1 prósent á landsvísu í þingkosningum í öllum þessum nágrannalöndum Íslands hefði það dugað honum til að komast á þing. Það er þó vafamál hvort það gildir um Finnland en það fer eins og áður segir eftir fylgi í einstökum kjördæmum.
Gunnar Smári segir ljóst að 5 prósent krafan í íslensku kosningalögunum séu samantekin ráð gömlu flokkanna til að leggja stein í götu nýrra flokka eins og Sósíalistaflokksins:
„Kosningalögin sem gömlu flokkarnir settu til að vernda sig fyrir nýjum framboðum (lesist: nútímanum) svipti 8.181 kjósendur sínum þingmönnum. Nú stefnir Sósíalistaflokkurinn á þing, þarf aðeins að bæta við sig 1800 atkvæðum til að svo verði.“