Stefán Árni Pálsson, íþróttafréttamaður og stjórnandi Körfuboltakvölds á Stöð 2 Sport, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is.
Í þættinum var til að mynda rætt um Age Hareide landsliðsþjálfara og framtíð hans, en hún er talinn í mikilli óvissu. KSÍ getur sagt upp samningi hans eftir landsleikina í nóvember.
„Ég myndi stökkva á þetta ef Freyr Alexandersson stæði til boða en mér finnst það bara ekki líklegt. Ég tel að hann ætti að ráðast á þetta Cardiff starf,“ sagði Stefán, en Freyr er þjálfari Kortrijk í Belgíu og hefur verið orðaður við systurfélagið Cardiff.
„Er ekki of snemmt að taka ákvörðun um Hareide fyrir nóvember-gluggann? Hann getur enn komið okkur í umspil um sæti í A-deild,“ skaut Helgi inn í, en Ísland mætir þar Wales og Svartfjallalandi og ef allt fer vel fer liðið í umspilið um sæti í deild ofar í Þjóðadeildinni.
„Ef hann nær í 6 stig og liðið spilar frábærlega verður erfitt að reka hann,“ sagði Hrafnkell þá um málið.
Umræðan í heild er í spilaranum.