„Konan mín hefur hvatt mig til að finna mér kærustu þar sem hún segist ekki hafa áhuga á körlum. Eftir tuttugu ára hjónaband hefur hún loksins viðurkennt að hún er lesbía,“ segir maðurinn í bréfi sínu sem sambandsráðgjafinn Sally Land svarar og birt er í dálkinum Dear Deidre.
Maðurinn lýsir aðstæðum sínum nánar:
„Á þeim tíma þegar við stunduðum kynlíf reyndi hún að fá mig til að leika konu. Mér fannst það niðurlægjandi. Ég er 55 ára og hún 53 og við höfum verið gift í 20 ár. Þegar við byrjuðum saman á sínum tíma hafði ég ekki hugmynd um að hún væri spennt fyrir konum. Kynlífið okkar var eiginlega alltaf ákveðið vandamál. Stundum vildi hún stunda það þrisvar á dag og stundum aldrei – en það var alltaf á hennar forsendum. Ég fílaði það ekki en vildi síður rugga bátnum þar sem við áttum lítil börn.“
Maðurinn segir að fyrir sex árum hafi konan svo játað að hafa haldið fram hjá honum með konu sem hún vinnur með. Um leið hafi hún viðurkennt að laðast kynferðislega að konum og, það sem meira er, þá hafi hún engan áhuga á körlum.
„Það kemur því kannski ekki á óvart að við höfum ekki stundað kynlíf síðan. Hún á það til að vera kvikindisleg við mig og láta mig líða eins og ég sé óaðlaðandi og gagnslaus. Ég umber þessa hegðun af því að ég elska konuna mína og vona enn að samband okkar lagist.“
Maðurinn segir að nýleg hafi hann sagt konu sinni að hann vildi laga sambandið og byrja að stunda kynlíf aftur. „En hún bara hló, sagðist ekki hafa áhuga og lagði til að ég fyndi mér kærustu í staðinn. En ég vil það ekki, ég vil laga hjónabandið mitt. Hvað á ég að gera?“
Sally segir í svari sínu að það sé engum vafa undirorpið að hann sé í mjög óheilbrigðu hjónabandi með konu sem hefur haldið fram hjá honum og hafnað honum. Með hátterni sínu hafi hún sýnt honum misbeitingu.
„Ég veit að þú segist elska hana en staðreyndin er sú að þú átt svo miklu, miklu betra skilið en að vera með manneskju sem hefur gefið skýrt til kynna að hún vilji þig ekki. Stjórnsöm hegðun hennar hefur skemmt sjálfstraust þitt,“ segir Sally og bætir við:
„Þó skilnaður geti verið sársaukafullur myndi hann veita þér tækifæri á að kynnast annarri manneskju sem bæði virðir þig og þráir.“