Gandi, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, er ríkisborgari tveggja landa í mikilli upplausn, Sýrlands og Venesúela. Honum var vísað úr landi þrátt fyrir að hafa reynt allar leiðir til að fá að vera áfram á Íslandi. Foreldrar hans og yngri systir hafa öll fengið dvalarleyfi hérlendis. Gandi segir ekki spennandi að fara aftur til Sýrlands, enda sé ástandið þar verulega óstöðugt og slæmt eftir borgarastyrjöldina þar:
„Þú getur átt fína daga í Sýrlandi, en óstöðugleikinn er gríðarlegur og átökin mikil, þannig að þú veist aldrei hvenær eitthvað hræðilegt gerist. Ég hef upplifað hluti sem er erfitt fyrir mig að tala um og hafa mótað mig fyrir lífstíð. Ég gekk í gegnum mikið þunglyndi eftir að hafa ítrekað upplifað nálægð við dauðann í heimalandinu mínu. Ég man til að mynda eftir einu skipti þegar ég var í háskólanáminu mínu og við höfðum komið okkur fyrir í almenningsgarði á fallegum degi og allt virtist í lagi. Ég og einn annar vinur minn brugðum okkur aðeins frá hinum sem voru með okkur, en sjáum svo allt í einu flugvél birtast fyrir ofan okkur. Áður en við vissum var búið að senda sprengju í almenningsgarðinn sem við vorum í þarna rétt áður af því að yfirvöld töldu að það væri einhver mótmæli í gangi. Þegar við komum til baka var allt í rúst og það sem ég sá er eitthvað sem ég hef reynt að gleyma alla daga síðan. Ég sá beinagrind vinar míns hangandi í tré og aðra hluti sem enginn ætti að sjá. Ég hef þurft að vinna mikið í því að komast yfir þetta atvik,” segir Gandi, sem fellir tár þegar hann talar um þetta atvik, en segir það fyrst og fremst hafa kennt sér að við eigum að gera okkar besta til að vera góðar manneskjur alla daga:
„Þegar maður hefur horft upp á svona hryllilega hluti áttar maður sig enn betur á mikilvægi þess að koma alltaf vel fram við náungann og horfa á allt mannkynið sem eina fjölskyldu. Ég reyni að gera mitt besta alla daga til að hafa það í heiðri að hjálpa fólki sem er í erfiðum aðstæðum og glímir við erfiða hluti. Samkenndin er það sem tengir okkur á þessari jörð.”
Gandi segist aldrei hafa viljað þiggja ölmusu frá íslenska ríkinu, hann elski landið og fólkið hér og vilji ekkert frekar en að fá að búa hér og leggja sitt til samfélagsins:
„Það var ákveðið áfall að fá synjun um dvalarleyfi, enda bjóst ég við því að fjölskyldan mín fengi að vera saman hér á Íslandi. Ég hafði fengið þær upplýsingar úr kerfinu að ef ég færi úr landi og kæmi svo aftur til að sækja um myndi ég fá að vera hér. En þær upplýsingar reyndust kolrangar og það er auðvitað mjög svekkjandi. Tímabilið eftir að ég fékk að vita þetta hefur tekið á, sérstaklega á mömmu mína og fjölskylduna. Mamma er búin að gráta mikið, en ég sjálfur er ýmsu vanur og hef gengið í gegnum þannig hluti að ég hef þurft að finna æðruleysi og innri frið, sama hvað gengur á. Tilhugsunin um að yfirgefa Ísland að eilífu er auðvitað mjög sár, enda er fjölskyldan mín hér, en að sama skapi verður maður að lifa lífinu af æðruleysi og alltaf gera sitt besta með stöðuna eins og hún er.”
Foreldrar hans hafa komið sér fyrir á Íslandi, móðir hans starfar á leikskóla hérlendis og systir hans stundar nám í menntaskóla. Fjölskyldan tilheyrir þjóðflokki drúsa í Sýrlandi, sem eru hvorki kristnir né múslimar. Gandi er menntaður arkitekt, en á meðan mál hans velktist um í kerfinu var hann harðákveðinn í því að neita að þiggja ölmusu frá íslenskum yfirvöldum. Hann var aðeins búinn að vera hér í skamma stund þegar hann fékk vinnu í Te & Kaffi og var fljótlega gerður að vaktstjóra þar.
„Ég hef alltaf verið duglegur og elskað að vinna og er líklega mjög ofvirkur. Ég er ekki kominn hér í þetta viðtal til þess að láta fólk vorkenna mér eða kvarta. En ég á erfitt með að skilja af hverju kerfið segir bara nei, alveg sama þó að ég vilji borga hér skatta, vinna mína vinnu og aðlagast samfélaginu. Öll fjölskyldan mín er líka hér og auðvitað finnst okkur sárt og ómannúðlegt að fá ekki að vara saman. Fjölskyldan mín er í miklu uppnámi, enda getur liðið mjög langur tími þar til við hittumst aftur og þau vita að ég er að fara í mjög ótryggar og slæmar aðstæður. Ég er sannfærður um að kraftar mínir myndu nýtast vel hér á landi. Ég er háskólamenntaður, tala góða ensku, arabísku og spænsku. Ég hef fundið fullt af störfum í veitinga- og ferðaþjónustugeiranum, þar sem er mikill skortur af starfskröftum, en mátti ekki vinna út af dvalarleyfissynjuninni, segir Gandi, sem samt tekur því sem framundan er af æðruleysi:
„Ég hef sjálfur séð og upplifað það margt í lífinu að ég tel mig þola ýmislegt og veit að maður styrkist af öllu því erfiða sem maður fer í gegnum í lífinu. En ég vona innilega að ég fái einn daginn að koma aftur til Íslands, af því að ég elska þetta land, fólkið hér og veit að ég get lagt mitt af mörkum til samfélagsins.”
Hægt er að nálgast viðtalið við Gandi og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is