fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fréttir

Bar við kvíða vegna myglu, kulda, rafmagnstruflana og pöddugangs en hafði ekki erindi sem erfiði

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 23. október 2024 19:00

Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kona nokkur rifti leigusamningi milli hennar og eigenda íbúðar sem hún leigði á síðasta ári. Leigusamningurinn var ótímabundinn en konan sagði íbúðina óíbúðarhæfa vegna kulda, myglu, tíðra rafmagnsbilana og auk þess hefði orðið vart við skordýr. Konan rifti samningnum í lok ársins og flutti út. Segir hún andlega og líkamlega heilsu sína vera slæma eftir vistina í íbúðinni og að hún þjáist af kvíða. Leigusalarnir sögðu riftunina ólögmæta og héldu eftir hluta tryggingarinnar. Konan vildi fá hana alla endurgreidda og skaut málinu til kærunefndar húsamála sem tók ekki afstöðu með henni.

Konan gerði ótímabundin leigusamning við eigendur íbúðarinnar, en þess er ekki getið í hvaða sveitarfélagi íbúðin er, 31. ágúst á síðasta ári. Sagði hún í kæru sinni að íbúðin hefði verið í mjög slæmu ástandi. Það hafi verið mjög kalt í henni og frá miðjum september 2023 hafi mikil rigning og vatn lekið frá þakinu. Rakamyndun hafi orðið og í kjölfarið farið að bera á myglu og skordýr hafi látið á sér kræla.

Þegar komið var fram í október hafi hún þurft að nota hitara á hverri nóttu vegna kuldans og einnig hafi rafmagn í íbúðinni stöðugt slegið út. Sagði konan að öll þessi vandamál hafi haft áhrif á andlega og líkamlega heilsu hennar. Fullyrti konan að hún þjáist af kvíða eftir búsetuna í íbúðinni.

Enginn kvartað

Í andsvörum sínum sögðu leigusalarnir að konan hefði rift leigusamningnum einhliða með viku fyrirvara á Þorláksmessu á síðasta ári. Hún hafi samþykkt tilboð þeirra um að endurgreiða 115.000 krónur af tryggingarfénu en halda eftirstöðvunum, 185.000 krónum, eftir vegna tjónsins sem hafi orðið vegna hinnar ólögmætu riftunar. Kostnaður vegna úrbóta á íbúðinni hafi verið talsverður og leiga ógreidd.

Sögðu leigusalarnir konuna hafa vakið athygli á leka sem hafi komið upp á skilum þakplatna. Sögðu þeir þakið hafa verið lagfært af iðnaðarmönnum daginn eftir. Fullyrtu leigusalarnir að það hafi aldrei verið mygla í íbúðinni og aldrei sést nein merki um myndun hennar. Þaðan af síður hefði borið á ásókn skordýra. Vildu þeir meina að leigjendur sem leigðu íbúðina bæði á undan og eftir konunni hafi aldrei kvartað yfir kulda í íbúðinni.

Rifting án gagna

Í niðurstöðu kærunefndar húsamála segir að rafræn samskipti milli konunnar og leigusalanna sýni að hún hafi tilkynnt 13. desember á síðasta ári að hún væri að hugsa um að flytja út í febrúar. Leigusalarnir féllust á að hún gæti losnað fyrr undan leigusamningnum ef að nýr leigjandi fyndist. Á Þorláksmessu tilkynnti konan hins vegar að hún myndi flytja út viku síðar. Nefndin segir að konan hafi bersýnilega talið að sér væri þetta heimilt þar sem ýmsu hafi verið ábótavant í íbúðinnni.

Kærunefnd húsamála fellst hins vegar ekki á að gögn málsins geti stutt það að riftun á leigusamningnum hafi verið heimil. Leigusalarnir hafi orðið af leigutekjum vegna janúarmánaðar en náð að takmarka tjón sitt vegna vanefnda konunnar með því að koma íbúðinni í útleigu á ný frá 1. febrúar á þessu ári. Samkvæmt leigusamningnum hafi mánaðarleg leiga verið 185.000 krónur og leigusölunum því heimilt að halda þessari upphæð eftir af tryggingafénu.

Kröfu konunnar um að fá þann hluta tryggingarinnar sem leigusalarnir héldu eftir var því hafnað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!