Knattspyrnuþjálfarinn Þorlákur Árnason hefur tekið við sem þjálfari meistaraflokks karla hjá ÍBV. Þorlákur er 55 ára gamall og mjög reyndur í faginu en hann hefur þjálfað úti um allan heim síðustu ár.
Þorlákur skrifar undir þriggja ára samning við knattspyrnudeildina en hann tekur við af Hermanni Hreiðarssyni sem skilaði af sér frábæru starfi þegar Lengjudeild karla lauk í síðasta mánuði, en ÍBV varð meistari.
Þorlákur þjálfaði snemma á ferlinum hjá Val og Fylki í meistaraflokki karla en eftir það fór hann í landsliðsþjálfun og stýrði hann landsliðum U15-U17 hjá bæði strákum og stelpum frá 2009 – 2018. Á meðan stýrði hann Stjörnukonum til tveggja Íslandsmeistaratitla og eins bikarmeistaratitils á árunum 2011-2013.
Láki, eins og hann er oftast kallaður, stýrði þá einnig akademíunni hjá sænska liðinu Brommakjarna, sem eru með stærsta unglingastarf í Evrópu og þá var hann yfirmaður knattspyrnumála hjá knattspyrnusambandi Hong Kong í tæp þrjú ár. Hann sneri til baka til Íslands og stýrði Þórsurum í tvö tímabil í Lengjudeildinni en tók síðan við portúgalska kvennaliðinu Damaiense á síðasta ári.
Hann sagði upp störfum hjá Damaiense fyrir viku síðan eftir að hafa sinnt góðu starfi þar.