Sky News segir að samkvæmt því sem suðurkóreska leyniþjónustan segi þá verði sérsveitarmennirnir í rússneskum einkennisbúningum, með rússnesk vopn og fölsuðu skilríki. Eiga þeir að gangast undir þjálfun áður en þeir verði líklega sendir á vígvöllinn í Úkraínu.
Stutt er í að norðurkóreskir hermenn verði sendir til Úkraínu að sögn suðurkóresku leyniþjónustunnar sem segir að heildarfjöldinn geti orðið allt að 12.000.
Leyniþjónustan segir að norðurkóreskir herforingjar séu nú þegar á herteknu svæðunum í Úkraínu. Notaði hún, í samstarfi við úkraínsku leyniþjónustuna, gervigreindartækni til að bera kennsl á norðurkóreska hermenn í Donetsk. Þar aðstoða þeir rússneska hermenn við að skjóta norðurkóreskum flugskeytum á Úkraínu.
Áður var vitað að Norður-Kórea hefur látið Rússum mikið magn af skotfærum og flugskeytum í té. Það að norðurkóreskir hermenn verði sendir til að berjast með rússneska hernum er mikil stigmögnun stuðnings einræðisríkisins við Rússland.
Þetta vekur að vonum miklar áhyggjur hjá Úkraínumönnum og einnig Suðurkóreumönnum sem hafa áhyggjur af aukinni spennu í samskiptum Kóreuríkjanna.